Stjórnvöld og aðilar í ferðaþjónustu ættu að leggja WOW til 12 milljarða

„Ég held að áhættumat/ákvörðunarmat á þessu myndi leiða í ljós, að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki og stjórnvöld ættu að taka höndum saman um að fjárfesta/styrkja WOW um þessa ca. 12 ma.kr. sem fyrirtækið vantar til að komast yfir erfiðasta hjallann. Hægt væri að gera það með víkjandi lánum.“

Þetta segir Marinó G. Njálsson ráðgjafi í færslu sem hann ritar á fésbók, þar sem hann fjallar um leiðara Viljans frá í gær, þar sem rætt er hvort íslenska ríkið og lífeyrissjóðirnir ættu ekki að setja nýtt hlutafé í WOW air og tryggja þannig framtíð þess sem íslensks flugfélags.

Marinó G. Njálsson.

Marinó segir að bara tekjumissir ríkissjóðs og annarra aðila í ferðaþjónustu yrði margföld þessi upphæð, ef WOW air hyrfi af vettvangi.

„Svo bið ég fólk aldrei að gleyma því, að erfiðleikar WOW, Icelandair og ferðaþjónustunnar síðustu svona 24 mánuði eða svo var aðgerð sem skipulögð var inni í Seðlabanka Íslands. Seðlabankastjóri og aðalhagfræðingur kynntu þessa áætlun síðsumar 2016 með þeim inngangi að þeir vildu gera gjaldeyrisskapandi greinum erfitt fyrir, draga úr samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja og auka innflutning! Af þeirri ástæðu einni er það siðferðisleg ábyrgð ríkissjóðs að styðja undir rekstur WOW,“ segir Marinó ennfremur.