„Á hinu fyrrum alþýðublaði, Fréttablaðinu, keppast stríðaldir leiðarahöfundar við að toppa hvern annan í andstöðu gegn stærstu hagsmunasamtökum alþýðunnar. Helmingur leiðaranna í þessari viku voru notaðir til að vara fólk við forystu stærstu verkalýðsfélaganna; Kolbrún Bergþórsdóttir byrjaði á að vara almennt við því að alþýða manna léti skoðanir sínar í ljós í leiðaranum Gulu vestin, Hörður Ægisson kom síðan með sinn vikulega anti-verkalýðspistil og taldi sig taka nýja forystu verkalýðshreyfingarinnar á beinið í leiðaranum Að sækja í átök og í morgun birti Kristín Þorsteinsdóttir leiðara um hvað Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, misskildi hlutverk sitt og umboð herfilega í leiðaranum Stórskaðlegt.“
Þetta skrifar Gunnar Smári Egilsson, einn af stofnendum Fréttablaðsins, á fésbókarsíðu sína í dag, en Fréttablaðið birti í morgun leiðara útgefandans Kristínar Þorsteinsdóttur, þar sem hún segir formann VR öfgamann.
„Það er eins og það sé keppni á Fréttablaðinu um hver getur skrifað leiðarann sem best afhjúpar afleitt samfélagslæsi, blinda þjónkun við auðvald og elítur og meiri fyrirlitningu gagnvart lífsbaráttu almennings. Nema að ritstjórn þessa blaðs sé algjörlega aflokaður heimur og án nokkurra tengsla við veruleika samfélagsins, að leiðarahöfundar haldi í raun og sann að nýfrjálshyggjan sé enn óvéfengjanlegur samfélagssáttmáli sem allir beygja sig undir og að forystufólk almennings sem neitar því séu jaðarpersónur sem misskilji samtíma sinn,“ segir Gunnar Smári.
Afþakkar að fá blaðið inn um lúguna
„Slíkt sambandsleysi við almenning er náttúrlega dauðadómur fyrir fjölmiðil sem byggir á samtali við samfélagið. Og það má sjá af lestrartölum að dauðinn nagar ört undan Fréttablaðinu. Þegar Kristín Þorsteinsdóttir var ráðinn útgefandi Fréttablaðsins um mitt ár 2014, og innleiddi þessa auðvalds- og elítuþjónkun sem nú einkennir blaðið, lásu um 69 prósent fólks á höfuðborgarsvæðinu Fréttablaðið.
Nú er lesturinn á blaðinu kominn niður í 48 prósent, þriðjungur af lesendunum hafa gefist um blaðinu. Meira að segja Davíð Oddssyni hefur gengið betur að halda í lesendur Morgunblaðsins, hefur aðeins misst einn af hverjum sjö á meðan Kristín hefur fælt frá einn af hverjum þremur lesendum.
Þótt ég hafi komið að stofnun Fréttablaðsins og þyki vænt um sögu þess framan af, þegar blaðið var raunverulegt mótvægi við linnulausan auðvaldsáróður Morgunblaðsins og undirlægjuhátt Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum og valdastofnunum og útilokun beggja miðla á röddum og sjónarmiðum venjulegs fólks í fréttum og fréttaumfjöllun; þá eru margir mánuðir síðan ég afþakkaði að fá Fréttablaðið inn um lúguna heima hjá mér. Og það hefur ekki enn komið sá dagur að ég sakni þess. Nema helst núna í dag; þegar ég hefði viljað hringja í 550 5000 til að afþakka að fá Fréttablaðið sent heim í framtíðinni.“ segir Gunnar Smári Egilsson.