Stofnuðu nýjan flokk í skjóli sykurpabbans sem á nú helming í Fréttablaðinu

Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi.

Álitamálið sem rekur Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, til skrifta er einmitt málið sem hún og félagar hennar réðu ekki við að svara. Þau gátu ekki unað niðurstöðu meirihlutans og í skjóli sykurpabbans sem nú á helming Frettablaðsins hlupu þau af stað og stofnuðu nýjan flokk.

Þetta segir Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri KOM og fv. aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins, í færslu á fésbókinni í tilefni af grein Þorgerðar Katrínar í Fréttablaðinu í dag, þar sem hún lýsir innanflokksátökunum í Sjálfstæðisflokknum og segir hann þverklofinn og ekki færan um að reka EES-samninginn fyrir hönd þjóðarinnar.

Friðjón segir að það sé ekkert að því að fólk taki sig til og stofni stjórnmálaflokk, þannig sé frelsið og lýðræðið.

„En það er síðan áhugavert að fylgjast með þessu sama fólki á harðahlaupum frá mörgum fyrri skoðunum og ályktunum til að fylla upp í tómarúm vinstra megin við miðju sem Samfylkingin skilur eftir í sinni vinstri sókn sem hefur staðið samfleytt frá 2009 og gert ótal krata landlausa.

Annað sem er áhugavert er svo þráhyggja Viðreisnar vegna alls er varðar Sjálfstæðisflokkinn. Fyrir mann sem man nokkur ár aftur í pólitík minnir hún óneitanlega á árdaga Samfylkingarinnar sem steig ekki hænuskref án þess fyrst að athuga hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hafði hagað sér í sama máli. Og þannig er hringrás pólitíkunnar að konan sem ég studdi til að verða varaformaður Sjálfstæðisflokksins fyrir 14 árum er orðin formaður samfylkingarfólksins sem hún tók þá slaginn við og sýnir sömu þráhyggju og okkur fannst frekar kjánaleg,“ bætir hann við.