Stökkbreyting veirunnar gæti hafa gert hana meira smitandi

Dr. Anthony Fauci hér með Trump Bandaríkjaforseta.

Kórónuveiran Covid-19 virðist hafa stökkbreyst með þeim afleiðingum að hún smitast enn frekar milli fólks en áður, að sögn sóttvarnaráðgjafa Bandaríkjaforseta, dr. Anthony Fauci.

Rannsóknir standa nú yfir á þessum stökkbreytingum, m.a. með raðgreiningu erfðaefna veirunnar hjá sýktum einstaklingum hjá fyrirtækjum á borð við Íslenska erfðagreiningu, en Fauci segir lítinn vafa lengur leika á málinu.

Þekkt er að veirur stökkbreytast og kórónuveiran virðist hafa gert það nokkuð frá því hún greindist fyrst fyrir áramót í Kína, en þetta virðist skýrasta vísbendingin til þessa um meiriháttar stökkbreytingu veirunnar sem gerir hana aukinheldur ennþá hættulegri og erfiðari viðfangs.

Fyrst var greint frá niðurstöðum vísindamanna í þessa veru í grein í tímaritinu Cell á fimmtudag, en höfundar hennar eru læknar við Los Alamos rannsóknarmiðstöðina. Veirufræðingar hjá Scripps rannsóknarstöðinni í Flórída höfðu sett svipaðar kenningar fram í fyrra mánuði og sögðu smithraða vera að aukast. Ekki liggur fyrir hvenær umrædd stökkbreyting gæti hafa átt sér stað.

Fauci segir að umrædd stökkbreytt afbrigði veirunnar virðast dreifa sér betur en áður og skila umtalsvert meira magni af veirunni frá einum sjúklingi til annars. Það getur aftur leitt til þess að svonefndir ofurdreifarar (e. super-spreaders) verði algengari en hingað til.