Stór hópur mun ekki fyrirgefa þeim þingmönnum, sem bregðast í slíku máli

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.

Grasrótin innan Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu er ekki tilbúin til að taka því þegjandi að þingmenn flokksins taki þátt í því að samþykkja innleiðingu þriðja orkupakkans, segir Styrmir Gunnarsson fv. ritstjóri. Hann segir stóran hóp flokksmanna ekki munu fyrirgefa þeim þingmönnum, sem bregðast í slíku máli og Miðflokkurinn bíði á hliðarlínunni að njóta góðs af málinu.

Styrmir vísar til fundarhalda síðustu daga um orkupakkann og þess að þingályktun utanríkisráðherra og lagafrumvörp iðnaðarráðherra um málið séu á leiðinni inn í þingið.

„Verði þetta að veruleika má gera ráð fyrir að tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins leggi málið fyrir á þann veg, að eftir nákvæma yfirferð á fram kominni gagnrýni sé niðurstaða þeirra sú, að engin hætta sé á ferðum (og vafalaust einhver svokölluð sérfræðiálit lögð fram því til stuðnings) og ekki ólíklegt að einhvers konar yfirlýsing frá Brussel verði lögð fram því til staðfestingar,“ segir hann á vefsíðu sinni.

„Sennilega átta ráðherrarnir sig ekki á, að fólk er fyrir löngu búið að sjá í gegnum „sérfræði“álit og að almennir borgarar taka ekki mark á yfirlýsingum frá Brussel, þar sem tilbúnir orðaleikir hafa blómstrað meir og betur en áður hefur þekkst.

Og ekki er ólíklegt að forystumenn stjórnarflokkanna muni leggja áherzlu á að keyra málið í gegnum þingið á mjög skömmum tíma,“ bætir hann við.

Munu missa traust flokksmanna

Hann veltir því fyrir sér, hvað muni gerast innan Sjálfstæðisflokksins í framhaldinu. 

Styrmir Gunnarsson er ekki hress með sína menn í Sjálfstæðisflokknum.

„Þeir þingmenn flokksins, sem greiða atkvæði með orkupakkanum munu missa traust flokksmanna með afgerandi hætti. Verði þeir þess ekki varir á næstu vikum munu þeir finna það skýrt og greinilega í prófkjörum vegna næstu alþingiskosninga. Hér er nefnilega ekki á ferð venjuleg pólitískt álitaefni heldur grundvallarmál, sem varðar fullveldi Íslands og yfirráð yfir einni af helztu auðlindum landsins.

Stór hópur flokksmanna mun ekki fyrirgefa þeim þingmönnum, sem bregðast í slíku máli.

Á að trúa því að þingmenn vilji kalla þessi ósköp yfir þann flokk, sem hefur hafið þá til vegs á Alþingi og í ríkisstjórn?

Á næsta landsfundi mun afleiðingarnar koma fram í harkalegum deilum í umræðum um málið og við kjör forystumanna a.m.k. í verulega minnkandi hlutfalli þeirra, sem greiða forystumönnum atkvæði sitt.

Sérstakt Sjálfstæðisfélag um fullveldi Íslands?

Þá er ekki ólíklegt að umræður hefjist fyrir alvöru um stofnun sérstaks Sjálfstæðisfélags um fullveldi Íslands, sem hefur stöku sinum verið reifað á undanförnum mánuðum.

Átök af þessu tagi munu óhjákvæmilega koma fram í fylgi flokksins,“ segir Styrmir ennfremur.

Hann vísar og til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn niður í fjórðungsfylgi í skoðanakönnunum og megi ekki verið meira fylgistapi.

„Á hliðarlínu bíður Miðflokkurinn þótt forystumenn hans hafi ekki úr háum söðli að detta þegar kemur að samskiptum við ESB.

Á að trúa því að þingmenn vilji kalla þessi ósköp yfir þann flokk, sem hefur hafið þá til vegs á Alþingi og í ríkisstjórn?“ segir Styrmir Gunnarsson.