Jazzhátíð Reykjavíkur mun standa yfir frá 4. – 8. september næstkomandi, að undanskildu upphitunarkvöldi þann 3. september á Kex Hostel.
Jazzhátíð Reykjavíkur hefur verið haldin árlega allt frá árinu 1990 og er næst elsta tónlistarhátíð landsins.
Í ár verður þetta því í þrítugasta skipti sem hún er haldin. Fyrsta Jazzhátíðin var framlag RÚV til norrænna útvarpsdaga og tókst með eindæmum vel. Svo vel í raun að ákveðið var að halda árlega hátíð á vegum RÚV og Reykjavíkurborgar. Sú hátíð var kölluð RÚREK. Það var svo nokkrum árum síðar sem FÍH kom inn í myndina og tók að sér umsjón Jazzhátíðar Reykjavíkur og þannig hefur það verið síðan.
Hátíðin er árleg uppskeruhátíð innlendra jazztónlistarmanna sem og þeirra sem koma í tilefni af hátíðinni til þess að spila. Dagskráin spannar breitt svið og höfðar til mjög margra, svo allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Boðið er upp á fjölda ókeypis viðburða auk hefðbundinnar kvölddagskrár.
Viljinn ræddi við Jón Ómar Árnason sem situr í stjórn hátíðarinnar.
„Undanfarin ár hef ég unnið í sjálfboðastarfi fyrir Jazzhátíð og kom svo inn í stjórnina síðastliðið haust. Með mér í stjórninni eru þau Sunna Gunnlaugsdóttir og Leifur Gunnarsson en þau eru hokin af reynslu, eru þau búin að vera í stjórninni síðan árið 2015.“
Jón Ómar segir að hátíðin í ár sé í grófum dráttum með svipuðu sniði og undanfarin ár en gaman sé að segja frá því að nú fari hún öll fram á stöðum í grennd við Reykjavíkurtjörn og mætti þar helst nefna Listasafn Íslands, Tjarnarbíó, Hard Rock Cafe, Ráðhús Reykjavíkur og Borgarbókasafnið Grófinni.
Það eru nokkrir viðburðir á Jazzhátíð sem hafa fest sig í sessi á síðustu árum og nægir þar að nefna Jazzgönguna sem verður á sínum stað á opnunardeginum. Gangan leggur af stað frá Lucky Records við Hlemm kl. 17:00 með jazzskotnum lúðraþyt og trumbuslætti og hvetur Jón Ómar alla til að mæta í hana hvort sem þeir spila á hljóðfæri eður ei.
Fyrir utan hefðbundna tónleikadagskrá verða einnig viðburðir eins og pallborðsumræður um kynjahalla í jazzi en sú umræða verður leidd af Ros Rigby, fyrrum forseta Europe Jazz Network. Vernharður Linnet mun kynna nýútkomna bók um evrópska jazztónlist en hann tók saman kaflann um Ísland. Segir Jón Ómar að yngsta kynslóðin fái líka eitthvað fyrir sinn snúð því nokkrir jazzpúkar ætli að bregða á leik á lokadeginum.
„ Í ár verða tvennir útgáfutónleikar á Jazzhátíð. Árni Heiðar Karlsson og kvartett hans er að senda frá sér plötuna Flæði II og Silva Þórðardóttir gefur út sína fyrstu skífu sem kallast Skylark. Auk þessa eru nokkrar sveitir að fylgja eftir nýlegum útgáfum og má þar nefna DeLux 4Tet Sigurðar Flosasonar, tríó Mikaels Mána og tríó breska saxófónleikarans Tori Freestone. Að lokum er vert að nefna nokkur dæmi um athyglisverð og spennandi atriði á Jazzhátíð í ár en þau eru ensk-skandinavíska tríóið Phronesis, dúett meistaranna Tómasar R. Einarssonar og Eyþórs Gunnarssonar og síðan tvö fjölþjóðleg samstarfsverkefni. Annars vegar er það samstarf Jóels okkar Pálssonar, sænska bassaleikarans Torbjörn Zetterberg og portúgalska trompetleikarans Susana Santos Silva, sem tímaritið Downbeat kallaði einn mest spennandi spunatónlistarmann heimsins hvorki meira né minna, og hins vegar samstarf Scotts okkar McLemore og breska trompetleikarans Laura Jurd .“
Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar reykjavikjazz.is og fer miðasala fram á tix.is.