Stórsigur Nýsjálendinga gegn veirunni –– eða hvað?

Ardenny, forsætisráðherra Nýja Sjálands.

Nýsjálendingar fagna því í dag að kórónuveirunni Covid-19 hafi verið útrýmt í landinu. Í heimsfréttum dagsins er góður árangur landsins og áform um að slaka nú á öllum takmörkunum innanlands á athafnafrelsi.

Sá galli er þó á gjöf Njarðar, að Nýja Sjáland er lokað fyrir umheiminum að mestu leyti og nú gengur þar vetur í garð, sem gæti verið kjöraðstæður fyrir aðra bylgju veirunnar.

Danski stjörnuhagfræðingurinn Lars Christensen segir á vef sínum að veiran sé komin til að vera og hún muni hitta Nýsjálendinga aftur fyrir innan skamms, svo fremi að ekki komi til bóluefni.

Hann segir ósköp einfalt að covid-19 deyji ekki út. Annað hvort þurfi bóluefni eða hjarðónæmi og langt sé í land með hvort tveggja.

Danski hagfræðingurinn Lars Christensen.

Hann bætir við að ekkert liggi fyrir um hversu stór hluti mannkyns þurfi að sýkjast til að það náist fram hjarðónæmi, en á meðan veiran geisi um heiminn geti ekkert land lýst þvi yfir að það hafi útrýmt veirunni.

Það þurfi ósköp einfaldlega að læra að lifa með henni.

„Nýja Sjáland hefur ekki unnið neinn sigur. Það hefur bara frestað sársaukanum þar til síðar. Fórnarkostnaðurinn nú er einangrun frá umheiminum sem er auðvitað ómögulegt til lengdar,“ segir hann.