Enginn bilbugur er á þingmönnum Miðflokksins í umræðunni um þriðja orkupakkann á þingi, en fundi var frestað rúmlega níu í morgun og hafði þá staðið lengur fram á morgun en nokkru sinni áður í þingsögunni. Forseti þingsins notaði tækifærið og hvatti forystumenn Miðflokksins eindregið til að íhuga stöðuna vandlega milli funda og gæta að leikreglum lýðræðisins.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, benti á að fjöldi mikilvægra mála biði afgreiðslu og ekkert hefði komist að þessa viku nema þriðji orkupakkinn. Búið væri að ræða málið í um 70 klukkustundir og þar af hefðu um 60 farið í ræður og innbyrðis andsvör þingmanna Miðflokksins.
Hægt er að sjá ræðu forseta þingsins í spilaranum hér að neðan.
Fátt bendir til þess að Miðflokkurinn hyggist gefa eftir í málinu. Á fésbókarsíðu flokksins birtist mynd frá þingflokksfundi á tíunda tímanum í morgun, þar sem segir: „Þingfundi var frestað 09:04 en þungfundur mun aldrei hafa verið látinn standa jafn lengi fram á morgun. Að því búni fóru þingmenn flokksins yfir stöðuna og hófu undirbúning fyrir framhaldið.“
Í þingræðum sínum í gærkvöldi og nótt buðu Miðflokksmenn ítrekað að önnur brýnni mál verði tekin fram fyrir orkupakkann og afgreidd, svo liðka megi fyrir þingstörfum. Hingað til hefur forseti Alþingis og stjórnarmeirihlutinn lagt allt kapp á að klára þriðja orkupakkann og greiða um hann atkvæði.