Stuðningsmenn Miðflokks, FF og stjórnarflokkanna hafna orkupakkanum

61% af þeim sem tóku afstöðu vilja að Ísland verði undanþegið Evrópulöggjöf um orkumál, en 39% telja að Íslendingar ættu að gangast undir löggjöfina.

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Maskína hefur gert fyrir Heimssýn, samtök þeirra sem eru andsnúin aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda stjórnarflokkanna, Miðflokksins og Flokks fólksins vilja að Ísland verði undanþegið orkulöggjöfinni, en rúmur þriðjungur stuðningsmanna Samfylkingarinnar vill undanþágu.  

59% þeirra sem afstöðu taka vilja ekki heimila innflutning á hráu, ófrosnu kjöti, en 41% vilja heimila innflutninginn.  Yfirgnæfandi meirihluti stuðningsmanna Framsóknar og Vinstri grænna vill ekki heimila innflutninginn og meirihluti sjálfstæðismanna er einnig andvígur því að innflutningurinn verði heimilaður.   Um þriðjungur stuðningsmanna Samfylkingar og Viðreisnar vilja ekki heimila innflutning á hráu, ófrosnu kjöti.

Yfirgnæfandi meirihluti fólks (tæp 90% þeirra sem taka afstöðu) telur að hætta á ónæmum sýklum eigi að vega þungt við ákvörðun um heimild til að flytja inn hrátt, ófrosið kjöt.  Það á einnig við um stuðningsmenn þeirra stjórnmálaflokka sem hallir eru undir að heimila innflutninginn.  Svo virðist sem allnokkrir telji að hætta vegna ónæmra sýkla sé ásættanleg.