Styrmir, Birgitta, Haraldur og Vigdís á útifundi gegn Orkupakkanum

Orkan okkar og Gulvestungar standa fyrir útifundi um orkumál á Austurvelli í dag kl. 14. Þetta er annar laugardagsfundurinn í röð sem haldinn er um sama efni, en þingfundi var enn á ný frestað kl. hálf ellefu í morgun án þess að tækist að ljúka umræðum um þriðja orkupakkann.

Tilefni útifundarins í dag er áskorun almennings á þingmenn um að hafna orkupakkanum. „Lágmarkskrafan er að málinu verði frestað til næsta hausts til að skapa tíma til að fá svör við áleitnum spurningum um afleiðingar þess orkuppakka sem liggur fyrir þinginu nú og næstu pakka,“ segir í fundarboði.

Frummælendur eru: Birgitta Jónsdóttir fv. leiðtogi Pírata, Haraldur Ólafsson veðurfræðingur og formaður Heimssýnar, Styrmir Gunnarsson fv. ritstjóri Morgunblaðsins og Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins.

„Skipuleggjendur mótmælanna taka undir baráttukveðju Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, sem hann sendir þingmönnunum sem
standa vaktina fyrir þjóðina, við óboðlegar aðstæður og á vinnutíma sem tæpast er boðlegur í nútíma samfélagi, í því að koma í veg fyrir
að 3. orkupakkinn verði samþykktur,“ segir einnig í fundarboðinu.