„Það er langt gengið, þegar íslenzka utanríkisráðuneytið kallar eftir hótunum erlendis frá um hvað kunni að gerast hafni Alþingi orkupakka 3. Hér skal fullyrt að frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi hefur slíkt aldrei gerzt fyrr.“
Þetta skrifar Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, á vefsíðu sína í dag og er augsýnilega mikið niðri fyrir yfir áliti Carls Baudenbachers, sem Viljinn skýrði frá í morgun.
„Hverra hagsmuna er verið að gæta með slíkum vinnubrögðum?“ spyr Styrmir og bætir við að fróðlegt verði að sjá, einhverjir þingmenn á Alþingi Íslendinga sjái ástæðu til að gera athugasemd við vinnubrögð af þessu tagi.
„Dettur einhverjum í hug að slíkt pantað álit hefði sagt eitthvað annað en þar kemur fram?
Dettur einhverjum í hug, að hægt sé að fá „hlutlaust“ álit frá þeim aðila, sem um ræðir?!
Og dettur einhverjum í hug að íslenzka þjóðin láti hóta sér með þessum hætti?
Þetta var mjög misráðin aðgerð, svo ekki sé meira sagt,“ segir Styrmir Gunnarsson.