Styrmir varar stjórnarliða við: „Það kemur dagur eftir þennan dag“

Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri.

„Það er forvitnilegt að fylgjast með þingmönnum stjórnarflokkanna þessa dagana á meðan þeir bíða eftir því að rétta upp hendina með orkupakka 3, margir hverjir gegn eigin samvizku,“ skrifar Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, á vefsíðu sína.

Umræða um þriðja orkupakkann heldur áfram í dag og virðist góður þingmeirihluti fyrir málinu enda þótt skoðanakannanir sýni mikla andstöðu við það innan allra stjórnarflokkanna.

„Þingmenn Framsóknarflokksins þegja flestir enda gera þeir sér áreiðanlega ljóst að þeir kunna að vera að rétta upp hendina með því að þurrka flokk sinn út.

Þingmenn VG virðast lifa í einhvers konar tómarúmi, sem bendir til að þeir viti ekki lengur hverjir þeir eru eða hvaðan þeir koma.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru kokhraustari. En háttsemi þeirra bendir til að þeir átti sig ekki á því að það kemur dagur eftir þennan dag. Þeir virðast a.m.k. ekki hafa nokkurn áhuga á því að hljóta endurnýjað umboð frá flokksfélögum og kjósendum.

Það er rétt að þeir viti af því, að þótt þeir hafi atkvæðin í sínum höndum á Alþingi eru það aðrir, sem hafa þau utan þess,“ segir Styrmir.