„Sumir gerðu grín og spurðu hvort ég væri ekki of gamall fyrir leikskóla“

Gísli Karl Ingvarsson er 28 ára og uppalinn í Breiðholtinu.  Var planið lengi vel að búa þar alla tíð. „Enda besta hverfið í Reykjavík “ segir Gísli. Eftir að hafa búið í London, New York og Los Angeles veltir hann því fyrir sér hvort það sé kannski besta hverfi í heimi? Nýlega pakkaði hann öllu sínu ofan í ferðatösku og er nú staddur í Maine og berst við löngunina að klóra sér í moskítóbit. 

Gísli Karl starfar sem leikari og líður vel í þeirri atvinnugrein. „Ég hreinlega man ekki hvenær mig byrjaði að dreyma um að verða leikari. Það hefur alltaf aðeins blundað í mér. Var ég rétt rúmlega tvítugur þegar ég loksins þorði að segja það upphátt að nú skyldi stefnan vera sett á leiklistarnám. Sumir voru ókátir með þessa ákvörðun, gerðu grín og spurðu hvort ég væri ekki of gamall fyrir leikskóla. Núna eru liðin fimm ár síðan ég hvarf af landi brott og mér  hefur aldrei liðið betur“. 

Þessa dagana er Gísli að setja upp söngleik í Maine, sjóræningjasöngleik sem heitir Treasure Island. Hann fékk að heimsfrumsýna söngleikinn í fyrra í Pennsilvaníu og í kjölfarið var honum boðið að koma og leika í Maine. Fer hann einnig með lítið hlutverk í næstu seríu af Succession sem eru sýndir á HBO. „Og hver veit nema ég viti allt um RÚV-bolla málið sem vakti spurningar hér um daginn. Ég lék líka í íslenskri þáttagerð um daginn sem ratar í sjónvarpið í haust. En ég má lítið segja meira um það í bili“.

Hægt er að fylgjast með ævintýrum gísla á Instagram aðgangi hans, @MelbergKarl

En hvað er svo planið hjá Gísla á næstunni ? 

,,Í sumar verð ég hér í Maine, í sjóræningjaleik, fram í endaðan júlí og svo í ágúst vonast ég til að finna mér nýja íbúð í New York. Þetta verður í fyrsta skipti sem ég kem ekki í heimsókn til íslands yfir sumarið. Sem er alveg glatað. Við vitum öll hvað það er dýrmætt að eiga sólarstundir með fjölskyldu og vinum’’.


Íslendingar eru allskonar, sem gerir það að verkum að þjóðin er ekki síður skapandi en þenkjandi. Fólk sem hefur fæðst hér og flutt hingað setur sitt skemmtilega mark á samfélagið sem færist síðan stundum með þeim út í heim. Eins og oft hefur verið sagt, ætli það sé ekki eitthvað í vatninu. Viljinn náði tali af nokkrum einstaklingum til þess að sjá hvað þeir eru að gera í lífinu og hvað planið hjá þeim sé það sem eftir er af sumri.  – María Rún Vilhelmsdóttir tók saman.