Sundabraut komin inn í drög að samkomulagi um höfuðborgarpakkann

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að bætt hafi verið inn málsgrein í drög að samkomulagi um höfuðborgarpakkann um tengingu við Sundabraut.

Ráðherrann staðfestir þetta á fésbókinni í dag, en gagnrýnt hafði verið að ekki væri minnst á Sundabrautina í pakkanum sem liggur fyrir í drögum og tekist hefur verið á bak við tjöldin undanfarna daga. Höfuðborgarpakkinn er nokkurs konar samkomulag ríkisstjórnarinnar og helstu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu umferðarmannvirkja til framtíðar, lagningu svokallaðrar borgarlínu og upptöku vegtolla sem eiga að fjármagna dæmið ásamt framlagi frá áðurnefndum aðilum.

Samgönguráðherra segir að nokkrir möguleikar komi til greina um hvar og hvernig best sé að leggja Sundabrautina og hvernig megi auðvelda umferð á milli miðborgar og Grafarvogs, létta á umferð á höfuðborgarsvæðinu og stytta leiðir út á land. 

„Tveir valkostir eru einkum taldir koma til greina. Annars vegar jarðgöng í Gufunes sem miðast við núgildandi skipulag og hins vegar lágbrú yfir Kleppsvík yfir á Holtaveg sem kallar á breytt skipulag á hafnarstarfssemi. Ég hef áður sagt að lágbrú yfir Kleppsvík sé fýsilegri kostur en jarðgöng. Bæði er hún ódýrari, henti fyrir alla samgöngumáta, þ.e. bílandi, almenningssamgöngur, gangangi og hjólandi,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.

„Síðari áfangi Sundabrautar mun síðan ná frá Gufunesi um Geldinganes, yfir Leiruvog, Gunnunes, Álfsnes og Kollafjörð að tengingu við Vesturlandsveg. Næstu skref snúa að frekari viðræðum við Faxaflóahafnir og skipulagsyfirvöld í borginni,“ bætir hann við.