Svanasöngur Stefáns? Borgarfulltrúar stjórna för, ekki embættismenn

„Þetta kom mér ekkert á óvart og ég tel að borgarritari hljóti að vera á förum, ég álít að þetta sé hans svanasöngur hjá Reykjavíkurborg. Það eru borgarfulltrúar sem stjórna för, en ekki embættismennirnir, þannig virkar lýðræðið,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins í samtali við Viljann, sem náði tali af henni og Eyþóri Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og óskaði eftir viðbrögðum þeirra við þeim ásökunum sem borgarritari, Stefán Eiríksson, hefur haft uppi í garð ótilgreindra borgarfulltrúa fyrir framgöngu þeirra í garð embættismanna og annarra starfsmanna borgarinnar.

Stefán ritaði ítarlega færslu á facebook-síðu starfsmanna Reykjavíkurborgar á dögunum, þar sem hann gagnrýndi harðlega ónafngreinda borgarfulltrúa fyrir ósæmilega framkomu í garð starfsfólks borgarinnar. Hann hefur heldur bætt í í viðtölum síðan og talað um heiðarlega borgarfulltrúa annars vegar og svo óheiðarlega borgarfulltrúa hins vegar.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær að Stefán hafi borið færsluna undir sig áður en hann birti hana. 

Þegar borgarstjóri gengst ekki við ábyrgð, þá eru bara einhverjir aðrir sem þurfa að gera það

„Ef þeir eru samverkamenn í þessu máli, Stefán og Dagur, þá held að þetta sé síðasti ruslapokinn sem Stefán ætlar með fyrir Dag út úr ráðhúsinu, það getur ekki annað verið,“ voru viðbrögð Vigdísar.

Eyþór Arnalds, hafði þetta að segja:

„Það kom á óvart að borgarstjóri skyldi staðfesta að borgarritari hafi borið facebook-færsluna undir sig, áður en hann birti hana, en það kom ekki á óvart að hann skyldi hafa gert það,“ sagði Eyþór. Hann segir undangengin hneykslismál við stjórn borgarinnar bitni auðvitað á starfsfólkinu.

„Þegar borgarstjóri gengst ekki við ábyrgð, þá eru bara einhverjir aðrir sem þurfa að gera það.“

Hefur þvert á móti staðið með borgarstarfsmönnum

Spurð hvort að sé fótur fyrir því sem Stefán heldur fram, segist Vigdís hissa á þessum ásökunum og kannast sjálf ekki við að þær eigi sér stoð í raunveruleikanum.

Hún segir að borgarfulltrúar hafi einungis rætt það sem fram hefur komið í skýrslum og álitum stofnana. Þvert á móti hafi hún sjálf staðið með starfsmönnum borgarinnar og tók sem dæmi mál fjármálastjóra Ráðhússins, en honum voru dæmdar skaðabætur frá borginni í fyrrasumar vegna ámælisverðra stjórnunarhátta og framgöngu skrifstofustjóra borgarstjóra og borgarritara. 

Vigdís kveðst þvert á móti finna til með starfsfólki Reykjavíkurborgar vegna alls þess sem farið hefur úrskeiðis undanfarið við stjórn borgarinnar.

Tilraun til þöggunar vegna erfiðra mála

Eyþór segist ekki kannast við þessar ásakanir og ekki sjá hvert tilefnið er á þessari stundu. „Það er mjög óþægilegt að þessu sé varpað svona á alla. Ég sé þetta sem tilraun til þöggunar vegna þeirra erfiðu mála sem verið hafa til umræðu um stjórn borgarinnar.“

Viljinn spurði Vigdísi hvað henni finndist þá um að kerfið veittist með slíkum ásökunum að kjörnum fulltrúum sagði hún: „Þetta eru gamalkunnug vinnubrögð þeirra aðila sem ekki eru kosnir af fólkinu en ætla að stjórna. Ég vil fullvissa alla um það að það flæmir mig enginn úr mínum störfum, hafi þetta verið tilraun til þess.“

Eyþór svaraði sömu spurningu og sagði:

„Nei, og borgarritari sagði sjálfur að þessi framganga sín væri óvenjuleg, og staðfesti þar með sjálfur að hann hafi farið út fyrir embætti sitt. Það er betra að tala hreint út og facebook er ekki góður vettvangur til að ná sáttum, heldur frekar til að koma af stað deilum.“