Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra staðfesti í morgun á samfélagsmiðlum, það sem Viljinn hafði sagt frá fyrir páska, að hún snýr aftur úr veikindaleyfi frá og með morgundeginum. Þar með ætti allt að vera klárt til að setja risastóra pólitíska hringekju af stað.
„Kæru vinir, ég vona að þið hafið notið páskahátíðarinnar. Ég kem aftur til starfa á morgun að loknu veikindaleyfi. Meðferðin hefur gengið afbragðs vel, horfur góðar og mér líður vel. Framundan er eftirlit og eftirfylgni, bjartsýni og fullvissa um bjartari tíð. Ég er þakklát fyrir allar kveðjurnar, hlýjuna og góðar óskir og hlakka til verkefnanna framundan!“ skrifar Svandís.
Búast má við því að Svandís yfirgefi matvælaráðuneytið áður en langt um líður, enda yfirvofandi að óbreyttu vantraust á hana vegna hvalveiðimálsins. Búist er við tilkynningu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í vikunni um framboð til forseta Íslands og þá fer í gang mikill kapall til að halda ríkisstjórninni saman, amk sem starfsstjórn fram að haustkosningum.
Líklegast er talið að annað hvort Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, eða Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verði forsætisráðherra og tækifærið verður líklega nýtt til að stokka frekar upp í ráðuneytum.