Svandís tekur af öll tvímæli og vill keyra á borgarlínuna

„Samgöngusáttmáli ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er lykilatriði í því að stórefla almenningssamgöngur og bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta. Markmið samkomulagsins er að stuðla að auknum lífsgæðum á höfuðborgarsvæðinu með uppbyggingu samgönguinnviða sem eru skilvirkir, hagkvæmir, öruggir og umhverfisvænir, og stuðla að því að ná loftslagsmarkmiðum um sjálfbært og kolefnislaust borgarsamfélag. Þá eru tækifæri með orkuskiptum í almenningssamgöngum. Samkomulagið var undirritað árið 2019 og síðan þá hafa samgöngur á svæðinu batnað og orðið greiðari. Sem dæmi um framfaraskref má nefna að lagðir hafa rúmlega 9 km af hjólastígum, og 3.5 km eru nú í framkvæmdaferli,“ segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra í grein sem birtist í Morgunblaðinu í vikunni og birtist sem færsla á fésbókarsíðu ráðherrans í dag.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins hafði sem fjármálaráðherra, lýst þeirri skoðun að endurskoða þurfi samgöngusáttmálann í heild sinni, þar sem ljóst sé að kostnaður við hann sé verulega vanáætlaður og forgangsraða þurfi framkvæmdum.

En nýr innviðaráðherra tekur af öll tvímæli um hug sinn til málsins:

„Ég mun leggja mikla áherslu á að hrinda samgöngusáttmálanum í framkvæmd, forgangsraða og tryggja uppbyggingu Borgarlínu í mínum störfum í innviðaráðuneytinu. Sáttmálinn er grundvallaratriði í því að bæta umferð í höfuðborginni. Þá er augljóst að markmið okkar í orkuskiptum í umferð munu ekki nást nema með því að hrinda samgöngusáttmálanum í framkvæmd. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029 er fjármagn til samgöngusáttmálans aukið verulega, eða sem nemur 20 milljörðum króna á tímabilinu.

Tilkoma Borgarlínu, efling almenningssamgangna og öflugri innviðir fyrir virka ferðamáta gera borgina okkar betri, skemmtilegri og grænni. Það er framtíðarborgin okkar allra,“ segir Svandís.