Svandís þakkaði fyrir leiðsögn og forystu WHO og hvatti til samstöðu þjóða

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þakkaði fyrir leiðsögn og forystu WHO og hvatti til samstöðu þjóða þegar hún ávarpaði þing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem nú stendur yfir. Þingið er haldið í skugga heimsfaraldurs COVID-19 sem er meginumfjöllunarefnið og setur jafnframt mark sitt á umgjörð þess þar sem það er haldið á Netinu.

Hörð gagnrýni hefur komið fram á leiðsögn WHO í faraldrinum og stendur til að greiða atkvæði í dag um tillögu um óháða rannsókn á upptökum veirunnar og viðbrögðum strax í kjölfarið. Á þinginu hafa fulltrúar nokkurra ríkja gagnrýnt WHO fyrir að draga um of taum Kínverja í viðbrögðum sínum.

Svandís tók annan pól í hæðin í erindi sínu og sagði leiðsögn WHO hafa reynst Íslandi vel þar sem kapp hefði verið lagt á greiningu smita, smitrakningu og sóttkví til að hindra útbreiðslu veirunnar. Hún sagði íslenska heilbrigðiskerfið hafa staðist álagið vel þar sem sterk, samhæfð, opinber heilbrigðisþjónusta hefði sýnt aðdáunarverðan sveigjanleika og aðlögunarhæfni.

„Margt höfum við lært sem mun gagnast við uppbyggingu og endurskipulagningu heilbrigðiskerfisins framundan“ sagði ráðherra meðal annars.

„Áhrif COVID-19 á þjóðir heims eru víðtæk. Nýr veruleiki blasir við. Djúp kreppa, atvinnuleysi og óöryggi setur mark sitt á líf fjölmargra. Við þurfum að fylgjast með áhrifum þessa á líðan fólks og geðheilsu, hlúa að samfélagslegum innviðum og sjá til þess að enginn verði skilinn eftir. Ég nefni hér sérstaklega konur og börn í viðkvæmri stöðu. Ég nefni hér fátækar þjóðir“ sagði ráðherra og ítrekaði að áframhaldandi samstaða þjóða væri grundvallaratriði í áframhaldandi baráttu við faraldurinn og til að mynda ein meginforsendan fyrir þróun bóluefnis við faraldrinum.

„Við búum í samfélagi þjóða og við eigum okkur sameiginleg markmið. Látum heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verða vegvísi okkar inn í framtíðina og skiljum engan eftir“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í lok ávarps síns á 73. þingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.