„Svandísi hefur tekist, það sem engum Sjálfstæðisráðherra hefur tekist, að búa til tvöfalt heilbrigðiskerfi á Íslandi. EES-samningurinn mælir fyrir um að þeir sem hafa beðið lengur, eða geta reiknað með að þurfa að bíða lengur, en í þrjá mánuði eftir aðgerð, eiga rétt á að vera sendir til annars lands innan EES-svæðisins í aðgerðir, t.d. til Svíþjóðar. Landlæknisembættið segir að ekki séu til peningar fyrir þúsund manns sem bíði eftir liðskiptaaðgerðum á fjárlögum. Hinir elstu sem geta ekki ferðast og og þeir fátækustu sem geta ekki borgað úr eigin vasa þurfa því að bíða lengst. Þetta er helsjúkt!“
Þetta segir Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, í samtali við Viljann um heilbrigðisráðherrann Svandísi Svavarsdóttur og langa biðlista í heilbrigðiskerfinu eftir nauðsynlegum aðgerðum, en töluvert hefur verið fjallað um þau mál í fjölmiðlum undanfarið.
Þorsteinn er meðstofnandi tveggja nýlegra facebook-hópa, annarsvegar hópsins „Úthýst af Íbúðalánasjóði“ og hinsvegar „Beðið eftir aðgerð.“ Af því tilefni heyrði Viljinn í Þorsteini, en hann hefur látið sig þessi mál varða á Alþingi.
„Stofnun hópsins „Úthýst af Íbúðalánasjóði“ er rökrétt framhald af því, að ég er búinn að vera að reyna að fá upplýsingar um eignir sem Íbúðalánasjóður hirti af fólki“, segir Þorsteinn.
Í lýsingu hópsins segir:
„Á árunum 2009 – 2017 voru 3.600 fjölskyldur og einstaklingar hraktir af heimilum sínum vegna skulda víð Íbúðalánasjóð. Margir þeirra hafa ekki komið sér upp þaki yfir höfuðið aftur. Þessi síða er ætluð sem vettvangur fyrir þessa einstaklinga. Tilgangur síðunnar er m.a. að safna saman upplýsingum um þá sem Íbúðalánasjóður úthýsti og vera undirbúningur að opnum fundi sem Miðflokkurinn hyggst halda snemma í maí. Sá fundur verður haldinn til þess að raddir þeirra sem úthýst var af Íbúðalánasjóði heyrist og til þess að leita sameiginlega að lausnum sem gætu dugað þessum hópi til að komast í varanlegt og öruggt skjól.“
Fleiri virðast ósáttir en þeir sem misstu heimili sín á árunum 2009-2017, þar eð í innleggi frá einum meðlima hópsins segir:
„Saga frá 26. mars 2001. Æskuheimilið mitt var selt á uppboði vegna vanskila, kaupandinn var Íbúðalánasjóður sem seldi svo áfram húsið til sonar starfsmanns sjóðsins. Kaupverð var 300.000 kr. Foreldrum mínum eða öðrum var ekki boðið húsið til kaups. Húsið var selt án þess að fara í sölu hjá fasteignasölu.“
Þorsteinn kveðst vera búinn að fá mikil viðbrögð frá þeim sem misstu íbúðirnar sínar til ÍLS.
„Við [Miðflokkurinn] ætlum að halda opinn fund snemma í maí með þessu fólki svo að rödd þeirra fái að heyrast. Við viljum komast að því hvað gæti hjálpað þeim til að komast í skjól aftur. Við viljum ekki lofa upp í ermina á okkur, en við viljum hlusta á þau og sjá hvort það sé hægt að gera eitthvað svo þau nái vopnum sínum aftur.“
Elstir og efnaminnstir bíða lengst
Hinn facebook-hópurinn heitir „Beðið eftir aðgerð.“ Fjögur þúsund manns bíða eftir öllum tegundum aðgerða í heilbrigðiskerfinu, segir Þorsteinn, „en það eru tölur frá um áramótin. Ég geri ráð fyrir að sú tala hafi hækkað síðan þá.“
Hann segir þar af vera um þúsund manns sem bíða eftir liðskiptiaðgerðum.
„Aðgerð í Svíþjóð kostar tvö til þrefalt meira en að senda sjúklinga á Klíníkina í Ármúla, sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) vilja ekki semja við.
Við [Miðflokkurinn] viljum ná til þessa hóps og kanna hvort það kunni að vera tilefni til að höfða hópmálsókn gegn heilbrigðisráðherra fyrir að brjóta Sjúklingalög.“
Þorsteinn segir vera 8-10 mánaða bið til að komast að hjá sérfræðingi, en eftir það geti hann sett fólk á biðlista eftir aðgerðum og þar þurfi það að bíða í 18 mánuði til viðbótar. Samtals gera þetta 2-3 ár.
„Þetta fólk borgar kannski 1,2 milljónir fyrir aðgerð á Klíníkinni. Ríkið vill frekar senda það til Svíþjóðar á einkaklíník þar, en það kostar SÍ kannski 2-3 milljónir.“
Þorsteinn kveðst búinn að gera 3-4 fyrirspurnir til heilbrigðisráðherra vegna biðlistanna. „Nú kom á daginn að ráðherra ætlar að setja 800 milljónir í að stytta biðlista, en spítalarnir ráða ekki við þetta. Bara slys eða eitthvað sem kemur upp á getur sett biðlistana úr skorðum.“
Hann segir að í fyrra hafi verið gerðar 150 aðgerðir á Klíníkinni. Þær hafi fólk sem gat ekki beðið lengur hafi borgað að fullu úr eigin vasa, og af þeirri ástæðu hafi biðraðirnar styst. Þorsteinn segir Landspítalann ekki hafa bolmagn til að sinna öllum þessum aðgerðum, því að hann sé bráðasjúkrahús.