Svarar fyrir ásakanir um falsfréttir: „Umfjöllun um stemninguna“

Aðalheiður Ámundadóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu.

„Í Fréttablaðinu í dag er umfjöllun um stemninguna á Alþingi. Markmið hennar er að gefa lesendum tilfinningu fyrir því andrúmslofti sem þar ríkir. Henni er ætlað að fanga það sem heimildarmenn mínir hafa sagt mér af göngum þinghússins. Hvað skrafað er og hvað menn heyra þar og sjá,“ segir Aðalheiður Ámundadóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, í færslu á fésbókinni í dag, en Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins var ósáttur við frétt Aðalheiðar í Viljanum í morgun og kallaði hana falsfrétt.

Baðst Fréttablaðið velvirðingar í yfirlýsingu sem það sendi frá sér, þar sem fram kom að blaðið hefði farið of geyst í fréttaflutningi af túlkun heimildarmanna.

„Það er þjónusta við lesendur og almenning að gefa innsýn í stjórnmálin, jafnvel þótt ekkert sé fast í hendi um hvað muni gerast eða hvernig mál þróist á endanum. Það er gagnlegt fyrir lesendur og kjósendur að skyggnast bak við tjöldin í þinginu og heyra hvernig aðstæður á þingi blasa við þeim sem þar eru. Það var markmiðið að gefa slíka innsýn.

Það er reynsla mín sem blaðamanns að sumir stjórnmálamenn láta aldrei ná í sig.

Niðurstaðan er auðvitað bara ein birtingarmynd. Sú birtingarmynd er samt sönn. Hún er sönn að því leiti að þeir sem ég ræddi við lýstu henni þannig fyrir mér. Það þarf ekki að vera að allir mínir viðmælendur lesi rétt í það sem þeir sjá og heyra en það gerir umfjöllun um þeirra upplifun ekki að falsfrétt,“ segir Aðalheiður.

Ákveðin pattstaða uppi

Markmiðið hafi verið að lýsa stemningu og samtölum þingmanna í milli um hvernig landslagið liggur.

„Það er ákveðin pattstaða eins og stendur. Það liggur í loftinu að breytingar verði á stærð þingflokka sem getur haft þær afleiðingar að áhrif þeirra, til dæmis í þingnefndum, breytist. En þótt tilteknir þingmenn gangi í nýjan flokk, gætu aðrir verið á útleið. Það er alls óvíst að svo fari á endanum og kemur ekki til greina í tilviki Sigurðar Páls, ef marka má yfirlýsingu hans. En um það er svo sannarlega rætt í þinginu. Það og margt annað,“ segir hún.

Aðalheiður segir jafnframt, að hún hafi reynt að ná tali af tveimur þingmönnum Miðflokksins í gær, „ég bæði hringdi og sendi þeim skilaboð. Mér láðist að láta þessara tilrauna minna getið og bið velvirðingar á því.

Það er reynsla mín sem blaðamanns að sumir stjórnmálamenn láta aldrei ná í sig. Þeir geta ekki búist við að um þá verði aldrei rætt á síðum blaðanna, ef þeir gæta þess að láta ekki ná í sig.

Sjálf get ég vissulega tekið gagnrýni Sigurðar Páls til mín. Í umfjöllun sem þessari þarf gæta þess að lesa ekki meira í orð heimildarmanna en ástæða er til, tala við marga og hlusta eftir samhljómi þeirra á milli. Það var gert. Það þarf líka að velja orð af kostgæfni og ákveða hversu djúpt í árinni er óhætt að taka. Ég hefði vissulega getað haldið mig á á grynningum og velti nú fyrir mér hvort ég tók rétta ákvörðun. Ég treysti heimildarmönnum mínum. Þeir lýsa því sem þeir sjá og heyra. En þeir vita ekki allt. Ekki ég heldur. Stemningin í þinginu er samt fréttnæm og að mínu mati á hún erindi við almenning,“ segir Aðalheiður.