Sveittur og slappur ráðherra reyndi að tala veiruna niður en reyndist sjálfur smitaður

Aðstoðarráðherra í íranska heilbrigðisráðuneytinu hefur greinst með Kórónaveiruna og verið settur í einangrun. Daginn áður hafði hann komið fram á blaðamannafundi og hafnað því að stjórnvöld þar í landi væru að halda réttum upplýsingum frá fólki um alvarleika málsins. Á fundinum hafði hann virst grútslappur og þurfti ítrekað að þurrka svitann, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.

Iraj Harirchi hafði svitnað ógurlega, svo eftir var tekið á blaðamannafundinum. Fyrir vikið var ekki sérlega trúverðugt þegar hann hélt því fram að veiran væri ekki jafn skæð í landinu og margir vilja vera láta.

Fimmtán hafa nú látist af völdum veirunnar í Íran, en þar í landi segja margir að dánartalan sé mun hærri. Einn þingmaður hefur sagt að bara í borginni Qom séu um 50 manns látnir.

Qom er vinsæll áfangastaður Pílagríma, einkum Shíta-múslima, og svo virðist sem einhver hafi borið veiruna þangað frá Kína. Um 20 milljónir sækja borgina heim ár hvert.