Svíar hafa milligöngu um að Ísland fái aðgang að kaupum ESB-ríkja á bóluefni

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Ákveðið hefur verið að kaup bóluefna gegn COVID-19 hér á landi fari fram á grundvelli samninga  Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur þegar gert samning við sænsk-breska fyrirtækið AstraZeneca um kaup á bóluefni og samningaviðræður ESB við fleiri framleiðendur bóluefna standa yfir. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti málið á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Ísland mun njóta góðs af Evrópusamstarfinu fyrir milligöngu Svíþjóðar sem hefur heimild til að framselja ríkjum EES, þar á meðal Íslandi og Noregi, bóluefni á grundvelli samninga ESB og hefur lýst sig reiðubúið til þess. Norsk stjórnvöld hafa einnig ákveðið að fara þessa leið til að tryggja aðgengi að bóluefni fyrir sína landsmenn. Nú liggur fyrir að Ísland og önnur EES-ríki munu fá hlutfallslega sama magn bóluefna og ríki Evrópusambandsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Gert er ráð fyrir að hér á landi þurfi um 550 þúsund skammta af bóluefni. Er þá miðað við að bólusetja um 75% þjóðarinnar til að ná fullnægjandi hjarðónæmi og að hver einstaklingur verði bólusettur tvisvar.

Samningur framkvæmdastjórnar ESB við AstraZeneca tók formlega gildi í vikunni. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar heimilar hann kaup aðildarríkja Evrópusambandsins á bóluefni fyrirtækisins, framsal bóluefna til annarra Evrópuþjóða og liðsinni við fátækari þjóðir. Bóluefni AstraZeneca er ekki komið með markaðsleyfi í Evrópu en er á lokastigum prófana og eru vonir bundnar við að unnt verði að taka það í notkun í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Eins og áður segir á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í viðræðum um samninga við fleiri framleiðendur bóluefna en tíminn mun leiða í ljós hvaða bóluefni verða fyrst tilbúin til notkunar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir afar mikilvægt fyrir Ísland að búið sé að tryggja samkomulag um kaup á bóluefni fyrir landsmenn á grundvelli Evrópusamstarfsins. Það sé einnig grundvallaratriði að samstaða ríki meðal þjóða um að tryggja aðgengi að bóluefni fyrir alla  jarðarbúa og mikilvægt að allir sem geta leggi sitt af mörkum til þess. Ísland hefur þegar lagt hálfan milljarð króna til þróunaraðstoðar í þessu skyni.  Forsætisráðherra hefur í þessu samhengi þegar tilkynnt um að Ísland muni leggja fram hálfan milljarð króna til þróunar og dreifingar bóluefna til þróunarríkja í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO), GAVI og CEPI.