Sænska lögreglan handtók í liðinni viku 45 ára sænskan karlmann sem grunaður er um njósnir fyrir Rússa. Hann starfaði hjá Volvo-bílaframleiðandum við að þróa fullkomin öryggiskerfi vegna aksturshæfni bifreiða án bílstjóra.
Þegar maðurinn var handtekinn sat hann á næturklúbbi með rússneskum embættismanni sem er grunaður um að vera njósnari þótt hann sé skráður stjórnarerindreki í rússneska sendiráðinu í Svíþjóð.
Á vefsíðunni The Local er rætt við leiðbeinanda við doktorsvinnu handtekna mannsins. Hann sagði þetta koma sér algjörlega í opna skjöldu því að maðurinn hefði starfað við mjög einfaldar rannsóknir og nýtt sér forrit sem væru almennt aðgengileg þess vegna ætti ekkert við þær að vekja áhuga njósnara.
Nafn mannsins var birt í dómsúrskurði um gæsluvarðhald hans en til þess var gripið af ótta við að annars kynni hann að spilla sakargögnum eða flækja rannsókn málsins á annan hátt.
The Local segir föstudaginn 1. mars að maðurinn sé fæddur og uppalinn í Svíþjóð. Hann varð doktor frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg. Hann hefur birt nokkrar fræðigreinar og starfar nú sem ráðgjafi.
Leiðbeinandi mannsins í skóla sagði að þegar þeir þekktust fyrir nokkrum árum hefði ekki verið neitt í fari hans sem benti til að hann væri ginnkeyptur sem njósnari.
„Hann er mjög félagslyndur, með mjög opinn huga og skemmtilegur í mannfagnaði. Ekkert benti til undarlegheita eða einmanaleika, þvert á móti var hann mjög virkur og opinskár félagi meðal kunningja sinna.“
Sænska leyniþjónustan segir að maðurinn hafi miðlað upplýsingum til Rússa síðan 2017. Hann hafi unnið á hátæknisviði við verkefni sem vektu áhuga erlendra ríkja.
Myndskeið sem sýnt var í sænskum miðlum er sagt sýna þegar maðurinn var leiddur út af veitingastaðnum. Vitni segir að lögregla hafi hlaupið inn á staðinn og umkringt borð þar sem tveir karlmenn sátu að kvöldverði. Báðir voru handteknir en öðrum fljótlega sleppt þar sem hann reyndist hafa sendiráðsskírteini.