„Sú saga gengur að þegar Ráðhús Reykjavíkur var byggt á níunda áratugnum hafi þurft að semja upp á nýtt við smiðina á hverjum morgni um yfirborgun á taxta — svo þeir færu ekki eitthvert annað. Á þessum tíma var verið að byggja Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Kringluna og Grafarvoginn — og því smiðaskortur. Satt eða logið? Stöðugur vinnuaflsskortur var hér seinni helming tuttugustu aldar. Því fór launaskrið af stað ef hagkerfið hitnaði sem skilaði gjarnan miklum hækkunum umfram kjarasamninga. Þá voru fyrirtækin einnig treg til þess að segja upp fólki — of erfitt var að finna nýtt fólk. Nú er Ísland orðinn hluti af evrópskum vinnumarkaði — og þessum vinnuaflsskorti (sem er enn viðvarandi) hefur verið mætt með aðflutningi erlends verkafólks. Launaskriðið heyrir eiginlega sögunni til — fólk fær greitt eftir strípuðum töxtum. Og fyrirtækin virðast ekki lengur hika við uppsagnir.“
Þetta segir dr. Ásgeir Jónsson forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands í færslu á fésbókinni, þar sem hann greinir stöðu efnahagsmála.
„Núverandi uppsveifla hefur staðið frá 2011 eða í 8 ár. Á þessum tíma hefur landsframleiðslan vaxið um 30% eða 3,7% á ári að meðaltali. Svo langur vaxtartími er í algerlega einstakur í íslenskri hagsögu — og má þakka erlendu vinnuafli að miklu leyti. Árið 2011 voru 162 þúsund starfandi á vinnumarkaði að meðaltali — árið 2018 um 200 þúsund. Starfandi fólki fjölgað um 40 þúsund eða 25%.

Af þessum nýja hópi eru um 20 þúsund útlendingar. Árið 2011 voru um 15,5 þúsund erlendir ríkisborgarar starfandi en telja nú 36 þúsund, eða um 18% af heildarfjölda á vinnumarkaði,“ segir Ásgeir og bendir á að líklegt megi telja að þessi erlendi aðflutningur hafi bætt 1-2% við vaxtarhraðann á hverju ári.
„Hinn undraverði vöxtur ferðaþjónustunnar á síðustu árum hefði annars verið ómögulegur,“ segir hann.
„Á bakvið þessar hagvaxtartölur eru gerbreyttur vinnumarkaður. Samningsstaða margra hópa hefur versnað verulega. Sumir hópar — líkt og eldra fólk — eiga nú mun erfiðara með að fá vinnu.
Hin hliðin á peningnum er sú að evrópskur vinnumarkaður togar einnig í fólk héðan. Mér finnst gríðarlega mikið áhyggjuefni að sjá tölur um gríðar mikinn brottflutning ungs menntaðs fólks á þessu langa hagvaxtarskeiði — Ísland virðist ekki lengur halda jafn sterkt í nýjar kynslóðir,“ segir Ásgeir.