Ríkisstjórnin fjallaði á fundi sínum í morgun um nýtt minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, sem hann sendi heilbrigðisráðherra í síðustu viku og felur í sér stöðumat hans varðandi COVID-19 faraldurinn hér á landi, útlit fyrir næstu vikur í fjórðu bylgju faraldursins og framtíðarfyrirkomulag sóttvarna hér á landi.
Minnisblað sóttvarnalæknis varðandi framtíðarfyrirkomulag sóttvarna á Íslandi vegna COVID-19:
Um mánaðarmótin júní/júlí 2021 var slakað á sóttvarnaaðgerðum hér á landi vegna COVID-19 bæði innanlands og á landamærum. Öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum innanlands var hætt 26. júní en fyrir þann tíma hafði sóttvarnaaðgerðum verið aflétt í nokkrum áföngum. Þann 1. júlí sl. var skimunum farþega á landamærum vegna COVID-19 hætt hjá þeim sem framvísuðu fullgildum vottorðum um bólusetningu gegn COVID-19 eða vottorðum um fyrri covid sýkingu og sömuleiðis hjá börnum. Dagleg smit höfðu þá í nokkurn tíma verið í lágmarki bæði á landamærum og og innanlands.
Um miðjan júlí fór smitum verulega fjölgandi innanlands og samkvæmt upplýsingum úr raðgreiningu greindra sýna var ljóst að farþegar voru að bera kórónaveiruna inn í landið og vegna engra takmarkana innanlands þá dreifðist veiran hratt í samfélaginu. Ljóst er að sú bylgja sem staðið hefur frá miðjum júlí sl. er sú stærsta sem sést hefur í COVID faraldrinum og á þessari stundu er ekki séð fyrir endann á henni.
Tæplega 60 manns hafa til þessa þurft að leggjast inn á sjúkrahús, sjö lagst inn á gjörgæslu og þrír þurft aðstoð öndunarvéla. Um 65% þeirra sem greindust voru fullbólusettir og þó að bæði bólusettir og óbólusettir hafi þurft á spítalavist að halda þá er ljóst að veikindi hinna bólusettu hafa verið talsvert vægari en þeirra sem óbólusettir eru. Þó sjást nú einkenni, eins og niðurgangar og óráð, einkum hjá bólusettum og sem eru mjög krefjandi er varðar hjúkrun og umönnun. Nýgengi greindra smita er þannig þrefalt hærra hjá óbólusettum en bólusettum, spítalainnlagnir um fjórfalt hærri og líkur á innlögn á gjörgæslu um 30 sinnum meiri.
Þann 25. júlí 2021 tók gildi reglugerð um takmarkanir innanlands sem gildir til og með 13. ágúst 2021. Í reglugerðinni er kveðið á um 200 manna fjöldatakmörk, eins metra nálægðarmörk, grímuskyldu við ákveðnar aðstæður og hertan opnunartíma skemmti- og veitingastaða. Ákveðið hefur verið að framlengja gildistíma reglugerðarinnar til og með 27. ágúst 2021.
Þann 27. júlí 2021 tók svo gildi ný reglugerð um skimanir á landamærum þar sem öllum farþegum nema börnum var gert að framvísa neikvæðu PCR eða antigen hraðgreiningaprófi við komuna hingað til lands og tilmæli gefin út um að allir sem hingað koma og eru með víðtækt tengslanet, fari í sýnatöku við komuna til landsins.
Á þessari stundu er óljóst hvort núverandi aðgerðir dugi til að ná utan um núverandi bylgju faraldursins. Hins vegar er ljóst að á þessum tímapunkti þarf að huga að framtíðarfyrirkomulagi sóttvarnaaðgerða innanlands og á landamærum vegna COVID-19. Sjúkdómurinn er hvergi á undanhaldi í heiminum og þó að tök náist á faraldrinum á Íslandi þá munum við búa við stöðuga ógn um að veiran berist hingað til lands og valdi hér útbreiddri sýkingu. Við þurfum einnig að vera við því búin að upp komi ný veiruafbrigði sem valdi skæðari sjúkdómi en áður hefur þekkst, veiran smitist auðveldar milli manna og sleppi jafnvel undan vernd bóluefna. Óljóst er hversu lengi slíkt ástand mun vara en ekki er óvarlegt að áætla að það taki marga mánuði eða jafnvel ár að kveðja faraldurinn niður í heiminum.
Ég legg því eftirfarandi aðgerðir á landamærum og innanlands næstu mánuði a.m.k.
- Landamæri. Ég tel mikilvægasta þáttinn í okkar sóttvörnum gegn COVID-19 að lámarka flutning veirunnar hingað til lands með farþegum. Að mínu mati eru tryggar varnir á landamærum forsenda þess að hægt verði að viðhafa lámarkstakmarkanir innanlands. Ég tel einnig mikilvægt að hafa í huga að aldrei verður hægt að útiloka alveg með aðgerðum á landamærum að SARS-CoV-2 veiran berist hingað til lands. Þetta er hins vegar hægt að lámarka með neðangreindum aðgerðum sem ekki ættu að vera of íþyngjandi.
a. Farþegar sem hingað koma verði allir krafðir um neikvætt PCR, antigen eða önnur hraðpróf vegna COVID-19 sem uppfylla opinberar kröfur, fyrir byrðingu og við komu hingað til lands. Einungis börn fædd 2016 eða síðar verði undanþegin.
b. Allir farþegar sem hingað koma (einnig börn) verið skimaðir við komuna til landsins helst með þeim prófum sem skilgreind eru í lið a. hér að ofan.
c. Þeir sem ekki geta framvísað gildum vottorðum skv. lið a. þurfi að undirgangast PCR próf við komuna hingað til lands, 5 daga sóttkví og aðra PCR skimun að henni lokinni.
d. Skoðað verði hvort ástæða geti verið til að taka í notkun antigen hraðgreiningapróf við skimun á landamærum ef sýnt þykir að greiningargeta við PCR próf muni ekki duga við skimanir á landamærum.
e. Ef ekki verður hægt að anna ofangreindum skimunum vegna fjölda ferðamanna þá legg ég til að leitað verði leiða til takmarka fjölda ferðamanna við þann fjölda sem okkar sóttvarnaráðstafanir ráða við. - Innanlandsaðgerðir. Ég tel ólíklegt að hægt verði að búa hér við takmarkalaust samfélag á meðan að COVID-19 geisar í heiminum. Aldrei verður hægt að tryggja til fulls að SARS-CoV-2 berist ekki inn erlendis frá þrátt fyrir góðar sóttvarnaaðgerðir á landamærunum. Ef engar takmarkanir eru til staðar innanlands þá mun hver og ein veira sem sleppur yfir landamærin geta sett af stað faraldur í slíku umhverfi. Auk þess verða aldrei allir bólusettir og vörn hjá bólusettum getur dvínað með tímanum. Því tel ég að ákveðnar takmarkanir þurfi ætíð vera til staðar til að koma í veg fyrir að slíkt gerist. Slíkar takmarkanir þurfa ekki að vera íþyngjandi og eiga að geta tryggt hér eðlilegt líf.
Efla þurfi áfallaþol og getu heilbrigðiskerfisins til að annast veika COVID sjúklinga án þess að það komi niður á þjónustu við aðra sjúklingahópa.
b. Áfram verði beitt smitrakningu, einangrun á smitaða og sóttkví hjá útsettum.
c. Almenn fjöldatakmörk ættu að vera til staðar og gætu miðast við 200 manns.
d. Stærri viðburðir gætu verið leyfðir gegn því að gestir sýni fram á neikvætt
PCR/antigen hraðpróf sem ekki mætti vera eldra en 24-48 klst gamalt. Benda má á reynslu Dana af slíku fyrirkomulagi.
e. Eins metra nándarregla ætti almennt að gilda nema hugsanlega á viðburðum þar sem gestir verða sitjandi og nota grímu.
f. Grímuskylda verði við ákveðnar aðstæður þar sem ekki verður hægt að tryggja nándarmörk, sérstaklega innanhúss þar sem margir koma saman, ekki er hægt að tryggja nándarreglu eða illa er loftræst.
g. Sund og baðstaðir verði opnir sem og líkamsræktarstöðvar.
h. Íþróttastarfsemi leyfð með fjöldatakmörkunum á áhorfendum í hólfi og þeim
gert að bera grímur, sérstaklega innanhúss.
i. Veitingastaðir, skemmtistaðir og barir opnir til kl. 23:00
j. Engar takmarkanir verði á skólastarfi en áhersla lögð á almennar sóttvarnir.
k. Sérstaklega verði hugað að loftræstingu og loftræstikerfum í skólastarfi og þar sem viðkvæmir hópar vistast, t.d. á hjúkrunarheimilum.
l. Ofangreindar aðgerðir verði almennar takmarkanir sem verði við líði þar til faraldurinn verður um garð genginn. Gera þarf ráð fyrir að tímabundið þurfi að grípa til hertra aðgerða í sérstökum tilvikum í stuttan tíma ef upp koma óvænt atvik sem ekki ræst við með öðrum aðferðum.
m. Reglulega þurfi að skoða hvort gefa þurfi örvunarskammt af bóluefni gegn COVID-19 eða bólusetja með nýjum bóluefnum.
n. Gera þurfi leiðbeiningar um reglubundnar skimanir með PCR eða antigen hraðgreiningarprófum í fyrirtækjum og á vinnustöðvum. Skylda þurfi reglubundnar skimanir á stöðum þar sem viðkvæm starfsemi fer fram eins og á heilbrigðiosstofnunum og hjúkrunarheimilum.
o. Styrkja þarf sýkla- og veirufræðideild til þess að þar verði unnt að gera raðgreiningar á veirum og bakteríum.
p. Styrkja þarf almannavarnir sem og sóttvarnir til að tryggja snörp viðbrögð ef útbreitt smit kemur upp.