Svona mál geta valdið straumhvörfum í stjórnmálum

Frá fundinum í gær. Þar voru fundargestir þvert á flokka og komust færri að en vildu.

Borgarafundurinn sem Ögmundur Jónasson, fv. þingmaður og ráðherra VG, efndi til í Þjóðmenningahúsinu í gær um orkupakka 3 og Viljinn sagði ítarlega frá, er fyrsta staðfestingin á, að grasrótinni í VG líði eins og grasrótinni í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokkivegna þessa máls.

Þetta er mat Styrmis Gunnarssonar, fv. ritstjóra Morgunblaðsins. Hann telur ljóst að margt flokksfólk úr Vinstri grænum hafi verið mætt til fundarins, enda þótt forysta flokksins hafi samþykkt innleiðingu orkupakkans í ríkisstjórn.

Styrmir Gunnarsson fv. ritstjóri með orkumarkað Evrópu í bakgrunni.

„Það er viðvörun, sem forysta VG ætti að gefa gaum,“ segir Styrmir.

Hann segir orkupakkamálið vera að komast á það stig að geta orðið miklu örlagaríkara fyrir stjórnarflokkana alla en þingflokkar þeirra virðist gera sér nokkra grein fyrir.

„Það eru svona mál, sem geta valdið straumhvörfum í stjórnmálum,“ segir Styrmir á vefsíðu sinni.