Svona var neyðarláninu til Kaupþings ráðstafað

Seðlabankinn birti nú kl. 16 margboðaða skýrslu um afdrif og ráðstöfun svonefnds neyðarláns sem Kaupþing fékk þann 6. október 2008.  Er hana að finna hér.

Lán Seðlabankans var greitt inn á reikninginn 6. október 2018. Aðrar inngreiðslur á reikninginn námu samtals 698 milljónum evra. Staðan í upphafi dags 6. október var neikvæð um sem nemur 387 milljónum evra.

Útgreiðslur af evrureikningi félagsins frá þeim tímapunkti og til dagsloka 8. október 2008 voru sem hér segir (samandregið):

• Útgreiðslur til innstæðueigenda í Kaupþing EDGE að fjárhæð 225 m. evra.
• Greiðsla til norræns seðlabanka að fjárhæð 170 milljónir evra.
• Greiðsla til tveggja erlendra félaga að fjárhæð 50 milljónir evra vegna útgáfu CLN (e. credit linked note) skuldabréfa.
• Greiðsla vegna veðkalls í tengslum við endurkaupasamning (REPO) til tveggja evrópskra banka að fjárhæð 47 milljónir evra.
• Greiðslur vegna gjaldeyrisviðskipta að fjárhæð 203 m. evra.
• Smágreiðslur (lægri en 10 milljónir evra), 4 – 500 talsins, í heild að fjárhæð 114,5 milljónir evra.

Samtals námu útgreiðslur 810 milljónum evra og staðan á reikningi félagsins í dagslok 8. október 2008 nam 0,6 milljónum evra.
Ekki er mögulegt að draga einhlítar ályktanir um ráðstöfun þrautarvaraláns Seðlabankans á grundvelli ofangreindra upplýsinga, segir í skýrslunni.

Þær sýni þó að á þessum tíma var verið að inna af hendi greiðslur sem ella hefðu líklega leitt til falls bankans. Færslurnar beri með sér að áhlaup er í gangi á innstæður og önnur fjármögnun er að verða erfiðari sem lýsir sér í veðköllum sem væntanlega tengjast veð- og endurkaupasamningum.

Samtals nema greiðslur til norræns seðlabanka, útstreymi á innstæðum og greiðslur vegna veðkalla 442 milljónum evra. Vegna greiðslna í tengslum við CLN skuldabréfið megi nefna að málið er ennþá til meðferðar hjá dómstólum. Ekki sé heldur hægt að draga miklar ályktanir af upplýsingum um fjárhæð gjaldeyrisviðskipta og mótaðila í þeim viðskiptum. Gera megi ráð fyrir að þær færslur hafi þegar verið skoðaðar af þar til bærum aðilum.