Sýslað um hundruð milljarða bak við luktar dyr

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og áður Miðflokksins. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Margt í sambandi við rekstur Eignasafns Seðlabankans vekur spurningar. Nauðsynlegt er að varpa ljósi á það hvort þar sé pottur brotinn eins og í gjaldeyriseftirliti bankans, sagði Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, á þingi í dag, en forsætisráðherra hefur svarað skriflegri fyrirspurn hans um gjaldeyriseftirlitið, eins og lesa má hér.

„Það er orðið ljóst að miklir meinbugir hafa verið á stjórnsýslu Seðlabanka Íslands varðandi gjaldeyriseftirlitið,“ sagði Birgir. Hann benti á að Eignasafn Seðlabankans og dótturfélag þess Hilda ehf hafi undanþágu frá upplýsingalögum samkvæmt ákvörðun stjórnvalda. Undanþáguna hafi átt að endurskoða eigi síðar en 15. desember á síðasta ári.

„Starfsemi Eignasafnsins og Hildu ehf varðar almenning miklu.  Þessi félög hafa séð um að koma miklum eignum ríkisins í verð. Í kjölfar falls fjármálafyrirtækja á Íslandi haustið 2008 varð Seðlabanki Íslands stór kröfuhafi í bú innlendra fjármálafyrirtækja. Kröfurnar voru tryggðar með veðum af ýmsum toga. Miklir almannahagsmunir eru í húfi þar sem Eignahaldsfélagið og Hilda ehf hafa stundað eignaumsýslu bak við luktar dyr, árum saman, með mörg hundruð milljarða króna eignir almennings,“ sagði Birgir.

Ég tel eðlilegt að hafna þessari beiðni og að opnað verði fyrir gegnsæi. 

Upplýsti hann að Seðlabankinn hafi nú óskað eftir áframhaldandi undanþágu frá upplýsingalögum, til handa áðurnefndum félögum.

„Ég tel eðlilegt að hafna þessari beiðni og að opnað verði fyrir gegnsæi. Sérstaklega í ljósi þess sem fram hefur komið að undanförnu varðandi meinbugi á stjórnsýslu Seðlabankans. Eignasafnið sýslaði um hundruði milljarða eigna Íslendinga og eðlilegt að opinber grein, sé gerð fyrir þeirri vinnu. Það þarf að eyða öllum grun um að þarna hafi verið stunduð fyrirgreiðsla eða spákaupmennska,“ sagði Birgir ennfremur.

Sagði hann nauðsynlegt að forsætisráðherra, fyrir hönd almennings, sem væri hinn raunverulegi eigandi þessara hagsmuna, sæi til þess að gefið verði út stutt álit, þar til bærra sérfræðinga, eins og endurskoðenda, samkeppnisyfirvalda og jafnvel þeirra sem fjalla sérstaklega um siðamál í viðskiptum, um að allt hafi verið með felldu í afgreiðslu bankans undanfarin misseri.