Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir viðskiptafræðingur tók sæti á Alþingi í dag sem varaþingmaður Miðflokksins í fjarveru Gunnars Braga Sveinssonar. Nanna er systir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, og dóttir hjónanna Gunnlaugs M. Sigmundssonar, framkvæmdastjóra og fv. þingmanns Framsóknarflokksins og Sigríðar G. Sigurbjörnsdóttur, lífeindafræðings og skrifstofustjóra.
Nanna Margrét er fædd 1978. Hún stundaði nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Frá árinu 2015 hefur hún verið fjárfestingastjóri Hafbliks fjárfestingafélags, en hún var áður ráðgjafi erlendra verslanakeðja 2013-2014 vegna starfsemi hér á landi, eigandi Náttúrulækningabúðarinnar og tengdra félaga í verslun og heildsölu 2008-2013 og starfaði hjá Eimskipafélagi Íslands frá 1998-2008, m.a. í fjárstýringadeild og sem sölustjóri í sjó- og flugfraktdeild.
Nanna Margrét situr m.a. í stjórnum Isavia, Ilta Investments, Ilta PE og Náttúrulækningabúðarinnar.
Hún var í framboði fyrir Miðflokkinn í síðustu alþingiskosningum í Suðvesturkjördæmi og skipaði þá 4. sæti listans.