Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá Hagstofu Íslands lýkur tæplega 40 prósent hjónabanda á Íslandi með lögskilnaði. Í mörgum tilfellum er um að ræða skilnað fólks sem á börn saman. Er þá ótalinn sá hópur fólks sem á börn og slítur sambúð.
Þetta kemur fram á vef velferðarráðuneytisins. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skrifaði fyrr í vikunni undir samning við danska fyrirtækið SES (Samarbejde efter Skilsmisse) vegna tilraunaverkefnis um innleiðingu sérhæfðrar skilnaðarráðgjafar til foreldra á Íslandi.
Ásmundur Einar segir um afar mikilvægt verkefni að ræða. „Ætla má að börnin sem þetta snertir séu um það bil 1.100 – 1.200 á ári. Þegar litið er til þess að langtímaáhrif skilnaðar á líðan barna geta verið verulega íþyngjandi, liggur í augum upp að það borgar sig fyrir okkur sem samfélag að standa sem allra best að þessum málum.
Hægt er að lágmarka áhrif skilnaðar á börn ef foreldrar fá aðstoð við að vinna úr tilfinningalegri togstreitu og ná að vinna saman í skilnaðarferlinu allt frá upphafi.“
Aukin áhersla á félagslega ráðgjöf
Verkefnið snýr annars vegar að aðgangi foreldra í skilnaðarferli að rafrænu námskeiði og hins vegar að viðtalsráðgjöf sérfræðings félagsþjónustu. Ásmundur Einar segir markmið verkefnisins vera að innleiða og þróa nýtt vinnulag með áherslu á félagslega ráðgjöf í skilnaðar-, forsjár- og umgengnismálum.
Verkefnið er að danskri fyrirmynd en eftir nýlegar breytingar á dönskum skilnaðarlögum þurfa allir foreldrar, sem sækja um leyfi til að skilja að borði og sæng og eiga börn undir 18 ára aldri, að taka skyldunámskeið um áhrif skilnaða á börn.
Samkvæmt rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið hefur sú framkvæmd þegar gefið mjög góða raun. Þessi aðferð hefur dregið úr streitu og þunglyndi meðal foreldra, dregið úr andúð þeirra í millum og fækkað veikindadögum nýfráskilinna foreldra á ársgrundvelli. Þá hefur námskeiðið ýtt undir góða foreldrasamvinnu. Af þessu, og fleiru, má leiða að námskeiðin komi börnum foreldranna til góða bæði í lengd og bráð.Ásmundur Einar átti góðan og upplýsandi fund með félagsmála- og innanríkisráðherra Danmerkur, Astrid Krag, um reynslu Dana af verkefninu en einnig almennt um málefni barna og mikilvæga samvinnu Norðurlandanna á þeim vettvangi. „Það er virkilega ánægjulegt að finna vilja og áhuga stjórnvalda í Danmörku til þess að gera enn betur í málefnum barna. Þar er verið að leggja áherslu á að vinna að uppbyggingu kerfis sem tekur mið af hagsmunum barna og setur réttindi þeirra í forgrunn,“ segir Ásmundur Einar.
Markmiðið að fækka ágreiningsmálum og bæta líðan barna
Með innleiðingu skilnaðarráðgjafar í félagsþjónustu er, að svo stöddu, ekki verið að breyta svokölluðu sáttarferli sem farið hefur fram hjá sýslumönnum þegar ágreiningur er um umgengni eða forsjá, að því er fram kemur á vef ráðuneytisins.
Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar skapast mikið álag og myndast töluverð bið eftir meðferð vissra skilnaðarmála sem getur haft alvarleg áhrif á líðan og velferð fjölskyldna og barna. Eitt af markmiðum verkefnisins er að grípa fyrr inn í mál með ráðgjöf og með því koma eins og hægt er í veg fyrir að ágreiningur komi upp. Þannig er áætlað að fækka megi þeim málum sem enda í sáttarferli hjá sýslumönnum.
„Hér á landi fara aðeins ágreiningsmál í sáttameðferð sem getur komið til seint í skilnaðarferlinu. Með markvissri ráðgjöf og þjónustu, strax í upphafi, viljum við reyna að fyrirbyggja að það komi upp ágreiningur síðar. Það ætti þá að leiða til þess að kerfið sem tekst á við ágreiningsmál hafi tök á því að taka þau til meðferðar skjótt og vel. Við vonumst til þess að efld þjónusta á fyrri stigum og þessi nýja nálgun í skilnaðarmálum stuðli að því að vernda börn og styðja þau í skilnaðarferli foreldra,“ segir Ásmundur Einar.