Tæplega 60% Íslendinga eru andvíg því að leyfður verði innflutningur á hráum eggjum, hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum mjólkurvörum hingað til lands. Ríflega helmingur þjóðarinnar vill að forseti Íslands synji lögunum staðfestingar, verði þau samþykkt á Alþingi, og vísi þeim til þjóðarinnar.
Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Gallup hefur gert að beiðni Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.
„Ég taldi nauðsynlegt að draga fram afstöðu almennings til þessa mikilvæga máls. Umsagnir hagsmunaaðila vísa flestar í þá átt að varlega skuli fara í þessum efnum og að afstaða ríkisstjórnarinnar sé ekki á þeirri línu sem meirihluti landsmanna kallar eftir,“ segir Bergþór í samtali við Viljann.
„Hvað niðurstöðurnar varðar, þá eru þær meira afgerandi en ég reiknaði með og jafnframt er greinilegt að stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna eru að meginhluta til ósammála þeirri afstöðu sem ríkisstjórnin hefur nú tekið.
Stuðningurinn við að málinu verði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu, fari svo illa að málið verði samþykkt lítið eða óbreytt, er jafnframt meiri en ég hafði reiknað með,“ segir Bergþór, en fyrsta umræða um málið hefur staðið yfir á þingi í dag.
Sjá nánar: