Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að framlengja án breytinga gildandi reglur um skimanir á landamærum. Framlengingin gildir til 6. október.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra vísar hann til fyrra minnisblað um þetta efni frá 11. ágúst 2020, þar sem hann kynnti níu mismunandi aðgerðir á landamærum og reifaði kosti þeirra og galla út frá sóttvarnasjónarmiðum. Sóttvarnalæknir segir að í grunnatriðum hafi mat hans ekki breyst og að hann telji enn að tvær skimanir á landamærum með fimm daga sóttkví á milli lámarki mest áhættuna á því að veiran berist inn í landið og dragi þannig mest úr líkum á faraldri innanlands.
Sóttvarnalæknir segir ljóst að skimun á landamærum hafi skilað miklum árangri til að hindra að smitaðir einstaklingar komi til landsins og þannig komið í veg fyrir meiri útbreiðslu innanlands. Þá hafi komið í ljós að um 20% smita á landamærum hafi einungis greinst í seinni sýnatöku þannig að ef einungis hefði verið beitt inni skimun hefði talsverður fjöldi smita borist inn í landið.
„Ég tel því óvarlegt á þessari stundu að breyta núverandi fyrirkomulagi skimana á landamærum sérstaklega í ljósi þess að nú er verið að draga úr ýmsum takmörkunum innanlands og að talsverður vöxtur er í útbreiðslu faraldursins í nálægum löndum“ segir sóttvarnalæknir í minnisblaði, sem birt er í heild hér að neðan.
Fram kemur í minnisblaði sóttvarnalæknis að þessi mál hafi verið rædd á fundi sóttvarnaráðs 10. september síðastliðinn og að sóttvarnaráð hafi lýst yfir stuðningi við tillögur og sjónarmið sóttvarnalæknis.
MINNISBLAÐ SÓTTVARNALÆKNIS TIL HEILBRIGÐISRÁÐHERRA
Frá 15. júní 2020 hafa verið viðhafðar skimanir á landamærum á Íslandi sem miða að því að lágmarka áhættuna á því að SARS-CoV-2 veiran sem veldur COVID-19 berist hingað til lands.
Á tímabilinu 15. júní til og með 12. júlí 2020 voru 34.865 einstaklingar frá völdum löndum skimaðir einu sinni og reyndust 12 þeirra vera með virkt smit (0,03%)
Á tímabilinu 13. júlí til og með 18. ágúst 2020 var ákveðið að skima valda einstaklinga tvisvar með 5 daga millibil. Alls voru 54.808 einstaklingar skimaðir og greindust 50 þeirra með virkt smit í fyrstu skimun og 11 í annarri skimun (af 18.441 einstaklingum) en þeir höfðu ekki greinst með veiruna í fyrstu skimun. Alls var hlutfall smitaðra því 0,11%.
Á milli fyrstu og annarrar skimunar var einstaklingum gert að sæta svokallaðri heimkomusmitgát sem er væg útgáfa af sóttkví. Heimkomusmitgát gafst ekki vel þar sem hún virtist mörgum einstaklingum torskilin, brögð voru að því að ekki var farið eftir fyrirmælum um smitgát og eftirlit erfitt í framkvæmd.
Þann 19. ágúst voru tvær skimanir á landamærum innleiddar með 5 daga millibili og krafist var sóttkvíar á milli skimana hjá öllum farþegum. Fram til dagsins í dag hafa 13.834 einstaklingar verið skimaðir og greindust 30 með virkt smit í fyrstu skimun en 8 í seinni skimun. Hlutfall smitaðra var því alls 0,3%. Framkvæmd sóttkvíar hefur gengið vel og eftirlit með einstaklingum í sóttkví talsvert auðveldara og einfaldara en einstaklinga í heimkomusmitgát.
Það er því ljóst að skimun á landamærum hefur skilað miklum árangri í því að hindra að smitaðir einstaklingar komi hingað til lands og þannig komið í veg fyrir meiri útbreiðslu innanlands. Auk þess hefur komið í ljós að um 20% smita á landamærum hefur einungis greinst í seinni sýnatöku. Þannig hefði talsverður fjöldi smita borist inn í landið ef einungis einni skimun hefði verið beitt.
Þegar litið er á ríkisfang þeirra sem greinst hafa smitaðir á landmærum þá kemur í ljós að 24% einstaklinganna voru með íslenskt ríkisfang og 60% með lögheimili á Íslandi. Ríkisfang og lögheimili annarra dreifðist á mörg lönd.
Frá 15. júní 2020 hafa 237 einstaklingar greinst með COVID-19 innanlands og hefur yfirgnæfandi fjöldi þeirra greinst með eina undirtegund af veirunni en ekki er vitað hvernig hún hefur komist inn í landið. Alls hafa sex einstaklingar þurft að leggjast inn á Landspítalann á þessu tímabili, einn þurfti á aðstoð öndunarvélar að halda en enginn hefur látist. Einnig er vert að geta þess að ekki hefur tekist að fullu að komast fyrir þennan faraldur og eru daglega að greinast nokkrir einstaklingar á mismunandi stöðum á landinu. Flestir þeirra (60%) voru í sóttkví en hjá öðrum var ekki hægt að tengja sýkinguna við greinda einstaklinga.
Þann 11. ágúst 2020 lagði ég fram minnisblað um níu mismunandi aðgerðir á landmærum þar sem kostir og gallar einstakra aðgerða voru reifaðir út frá sóttvarnasjónamiðum. Í grunnatriðum hefur mitt mat ekki breyst og út frá sóttvarnasjónamiðum tel ég enn að tvær skimanir á landamærum með fimm daga sóttkví á milli lámarki mest áhættuna á því að veiran berist inn í landið og dragi þannig mest úr líkum á faraldri innanlands.
Ég tel því óvarlegt á þessari stundu að breyta núverandi fyrirkomulagi skimana á landamærum sérstaklega í ljósi þess að nú er verið að draga úr ýmsum takmörkunum innanlands og að talsverður vöxtur er í útbreiðslu faraldursins í nálægum löndum.
Ég tel hins vegar að næstu vikur eigi stjórnvöld að nota til að meta ýmsar útfærslur af skimunum á landamærum í ljósi þróunar faraldursins hérlendis og erlendis, og í ljósi heildarhagsmuna landsins, m.a. efnahags- og atvinnumála.
Á fundi sóttvarnaráðs þ. 10. september 2020 voru ofangreind mál rædd og lýsti sóttvarnaráð yfir stuðningi við þær tillögur og sjónarmið sem hér koma fram.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.