Tekjuskattur lækkar verulega með nýsamþykktum lögum Alþingis um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda. Lækkunin verður í tveimur áföngum, 1. janúar 2020 og 1. janúar 2021.
Frá þessu var sagt á vef stjórnarráðsins í gær.
Ábatinn á að skila sér til allra tekjutíunda, og mest til þeirra tekjulægstu, en tekjuskattur þess hóps lækkar um rúmlega 120 þúsund krónur á ári. Þegar lækkunin er að fullu komin fram munu ráðstöfunartekjur heimilanna aukast um 21 ma.kr. á ári. Er þetta mikilvægur liður í því að styðja við heimilin þegar hægir á í atvinnulífinu og er lækkun tekjuskatts einn grundvöllur lífskjarasamninganna, sem gerðir voru fyrr á árinu.
Strax á næsta ári munu skattgreiðslur fólks við fyrstu þrepamörkin lækka um 42 þúsund krónur. Þá hefur verið tekið tillit til lækkunar persónuafsláttar sem beitt er í samspili við upptöku nýs lægsta þreps, til að beina þunga lækkunarinnar til þeirra sem eru um eða undir meðaltekjum.
Auk lækkunar tekjuskatts kemur til framkvæmdar seinni hluti 0,5 prósentustiga lækkunar tryggingagjalds, en gjaldið var lækkað um 0,25 prósentustig í upphafi árs 2019. Tryggingagjaldsprósentan með markaðsgjaldinu og gjaldi í ábyrgðarsjóð launa hefur farið úr 7,59% 2014 í 6,60% 2019 og verður 2020 6,35% sem styður við atvinnusköpun og rekstrargrundvöll fyrirtækja. Hæst var prósentan 8,65% árin 2010 og 2011.
Nánari upplýsingar og reiknivél tekjuskatts er að finna í tilkynningunni á vef Stjórnarráðsins.