Tekst Skúla að bjarga málum? Rætt um fléttu aldarinnar, ef til tekst

Íslenskt efnahagslíf leikur á reiðiskjálfi vegna óvissunnar í flugheiminum og rekstrarvandræða WOW air. Sagt er að skýrast verði í dag hvort lánadrottnar eru reiðubúnir að breyta kröfum sínum í hlutafé og taka þátt í björgun félagsins. Isa­via hef­ur breytt van­skila­kröfu vegna ógreiddra lend­ing­ar­gjalda á hend­ur WOW air í lang­tíma­lán og segja heimildamenn Viljans, að ef Skúla takist nú á lokasprettinum að bjarga málum og koma WOW fyrir vind sé það flétta aldarinnar, miðað við allt sem á undan er gengið.

„Það voru eiginlega flest sund lokuð,“ segir heimildarmaður Viljans sem þekkir vel til stöðu mála. „En það er svo skrítið, að þegar sú staða er komin upp blasir allt í einu við að það er hægt að bjarga þessu með samstilltu átaki allra sem að málinu koma. Það þarf að minnka skuldir og koma með nýtt fé. Þetta þarf að gerast strax. Menn bera virðingu fyrir því að stjórnendur félagsins neita að gefast upp og leita allra leiða. Það er ekki hægt annað en bera virðingu fyrir því,“ sagði hann ennfremur.

Svo sem nærri má geta segja bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið frá vandræðum WOW air á forsíðum blaðanna í morgun.

WOW air skýrði frá því í gærkvöldi að meirihluti kröfuhafa á félagið séu langt komnir í viðræðum um fjárhagslega endurskipulagningu, þar sem skuldum verður breytt í eigið fé.

WOW Air tapaði 22 milljörðum króna í fyrra, að því er Morgunblaðið segir frá. Þar segir að tap hafi orðið vegna sölu fjögurra Airbus-véla til Air Canada í lok síðasta árs. Tveir þotuhreyflar sem fylgdu með í sölunni hafi ekki staðist söluskoðun og það hafi rýrt andvirði vélanna mjög. Þá er staða fé­lags­ins afar veik um þess­ar mund­ir. Þannig mun lausa­fjárstaða þess vera nei­kvæð sem nem­ur rúm­um 11 millj­ón­um doll­ara, jafn­v­irði 1,4 millj­arða króna. Þá er eigið fé fé­lags­ins nei­kvætt sem nem­ur rúm­um 111 millj­ón­um doll­ara, jafn­v­irði ríf­lega 13 millj­arða króna. Þá mun hlut­falls­leg bók­un­arstaða fé­lags­ins vera um 50% af því sem hún var á sama tíma fyr­ir ári. Sér­fræðing­ar sem farið hafa yfir stöðu fé­lags­ins telja að leggja þurfi WOW air til að minnsta kosti 10 millj­arða króna út þetta ár svo halda megi rekstr­in­um á floti.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vinnur Arctica Finance að því að safna 42 milljónum dollara, andvirði rúmlega 4,3 milljarða króna, til að bjarga flugfélaginu frá þroti. Hafa verður hraðar hendur við það verk. Félagið skuldar fyrir um 200 milljónir dollara – skuldabréfaeigendum, Arion banka, Isavia ohf. og ýmsum öðrum viðskiptavinum – en sú upphæð samsvarar um 24 milljörðum íslenskra króna. Af þeirri upphæð eru um tveir milljarðar króna komnir til vegna skuldar félagsins við Isavia. Hefur félagið skuldbundið sig til að hafa ávallt eina vél flota síns á Keflavíkurflugvelli til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Sú hugmynd hefur verið viðruð, af forsvarsfólki WOW, að Isavia gefi eftir hluta skuldarinnar.