Tekst Skúla að safna nægu fé til að endurreisa WOW?

Einhver óvæntasta endurkoma seinni ára í íslensku viðskiptalífi gæti verið í farvatninu, ef áætlanir Skúla Mogensen um endurreisn flugfélagsins WOW air ganga eftir.

Fréttablaðið skýrir frá því á vef sínum í dag að Skúli og helstu lykilstarfsmenn WOW air, vilji endurvekja rekstur flugfélagsins og leiti nú fjármögnunar upp á 40 milljónir dala, jafnvirði um 4,8 milljarða króna, til þess að standa straum af rekstrinum fyrstu misserin.

Fréttablaðið vísar til fjárfestakynningar, sem dagsett er í gær, sem Skúli hefur látið útbúa um nýja lággjaldaflugfélagið. Stefnir félagið að því að reka harða lággjaldastefnu í líkingu við þá sem WOW air hafi rekið með góðum árangri á fyrstu árum þess.

Þar segir að nýja félagið muni til að byrja með, eftir að hafa sótt sér flugrekstrarleyfi, reka fimm Airbus-farþegaþotur, fjórar af gerðinni A321neo og eina af gerðinni A320neo. Fyrstu tólf vikurnar stefni nýja félagið að því að sinna leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag en í lok næsta júnímánaðar sé gert ráð fyrir að vélar félagsins fljúgi frá Keflavíkurflugvelli til þrettán áfangastaða víðs vegar í Evrópu og Norður-Ameríku, nánar tiltekið til Lundúna, Parísar, Amsterdam, Berlínar, Kaupmannahafnar, Dublinar, Tenerife, Alicante, Frankfurt og Barcelona í Evrópu og New York, Baltimore og Boston í Bandaríkjunum.

Sjá nánar í frétt Fréttablaðsins hér.