Telja myndbandsupptökur af Klaustri breyta heildarmyndinni

Frá Klausturbar við Kirkjutorg.

Þingmenn Miðflokksins, sem eru á upptökunum frá Klausturbar frá í nóvember, segja að fyrir liggi nýjar og veigamiklar upplýsingar sem sýni að mat siðanefndar Alþingis um málið byggi á röngum forsendum.

Í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í gærkvöldi, kom fram að fráleitt væri að sett forsætisnefnd birti álit sitt áður en frestur til að skila andmælum rynni út. Slíkt gengi gegn stjórnsýslulögum.

En það sem sagði í yfirlýsingu þeirra um hinar „nýju“ og „veigamiklu“ upplýsingar sem fram væru komnar, hefur hins vegar vakið athygli og spurningar. Þingmenn Miðflokksins vilja engu svara beint um málið, en Viljinn hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að málið snúist um myndbandsupptökur af Klausturbar umrætt kvöld og önnur gögn, sem liggja nú fyrir, og lögmenn málsaðila hafa fengið aðgang að.

Munu hinar nýju upplýsingar meðal annars felast í því að myndbandsupptökurnar sýni talsvert aðra atburðarás en hingað til hafi verið gefin upp í málinu af hálfu Báru Halldórsdóttur.

Persónuvernd hefur málið enn til skoðunar og ekki liggur fyrir hvenær stofnunin birtir úrskurð sinn um lögmæti upptökunnar sem Bára Halldórsdóttir kveðst hafa hljóðritað á farsíma sinn, en gera má ráð fyrir að þessar myndbandsupptökur úr öryggismyndavélum staðarins séu meðal þess sem stofnunin lítur til við úrvinnslu málsins.

Sett forsætisnefnd Alþingis varð við beiðni þingmanna Miðflokksins um frestun birtingar á áliti siðanefndar þingsins um málið, en skrifstofa þingsins segir að fyrir mistök hafi tengill með álitinu í pdf-skjali birst stundarkorn á Alþingisvefnum, en svo verið fjarlægður.