Telur að innan við 5% landsmanna hafi sýkst: Óvissan kemur að utan

Ljósmynd: Lögreglan.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur að eitthvað undir fimm prósent landsmanna hafi í reynd sýkst af kórónuveirunni Covid-19. Nákvæmt hlutfall muni koma í ljós þegar niðurstöður úr mótefnamælingum liggja fyrir.

Viljinn spurði sóttvarnalækni á upplýsingafundi Almannavarna hvort lítið samfélagslegt smit meðal íslensku þjóðarinnar gæti í reynd komið í bakið á okkur varðandi framhaldið. Sagði hann svo vera.

„Ég held að það geti líka komið í bakið á þeim löndum þar sem 10% eða 20% hafa smitast. Öll lönd geta átt á hættu að fá annan faraldur og það þarf ekki mikið að gerast til að svo verði, eins og við höfum séð í hópsýkingum hér í einstökum bæjarfélögum eða hjúkrunarheimilum.“

Þórólfur benti hins vegar á að nú séum við reynslunni ríkari og verðum í startholunum komi til þess að veiran blossi aftur upp.

Hann var þá spurður út í framtíðina, hvort ekki sé í reynd skynsamlegt að gera ráð fyrir að veiran verði ógn við samfélag manna víða um heim næstu misseri, jafnvel 12-24 mánuði.

„Jú, ég held það. Þessi veira er ekkert alveg að fara. Ýmis löng og jafnvel álfur eiga sína faraldra eftir. Hvort það verður í sex mánuði í viðbót eða tvö ár, er ekki hægt að segja núna. Margt er enn óljóst og við þurfum að vita hvernig við ætlum að stíga til jarðar næstu vikur og mánuði. Við þurfum að gera það varlega og finna einhverja millileið, skipuleggja þetta þannig að það feli ekki í sér of mikla áhættu fyrir íslenskt samfélag, en á sama tíma koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og eðlilegra lífi og starfsemi aftur.“

En telur hann þá ekki nú, að ógnin sem steðjar að Íslendingum nú komi fyrst og fremst frá útlöndum.

„Ég myndi halda það. Kannski ekki ógnin, heldur að óvissan um smit og smitleiðir sé aðallega erlendis frá. Við sáum hvernig faraldurinn byrjaði með íslenskum ferðamönnum sem komu erlendis frá. Það sýnir hvað þetta getur gerst hratt. Hættan nú er einna mest að nýjar sýkingar komi erlendis frá.“