Telur smithlutfallið hér á landi skuggalega hátt

„Nú hafa 250 sýni verið tekin samkvæmt fréttum dagsins og 16 manns hafa greinst með veiruna á Íslandi. Fimmtánda hvert sýni hefur reynst smitað sem lætur nærri að vera 7%. Miðað við mannfjölda er smithlutfallið nú, á fyrstu viku sóttarinnar hér á landi, 1/22000. Það er skuggalega hátt.“

Þetta segir dr. Ólína Þorvarðardóttir fv. alþingismaður, á fésbókinni í morgun og hún spyr hvort ekki sé tímabært orðið að íslensk stjórnvöld grípi til viðeigandi ráðstafana.

„Er þá kannski tímabært að herða aðgerðirnar kæru stjórnvöld? Til dæmis með því að snúa við þeim erlendu ferðamönnum sem koma frá áhættusvæðum auk þess að setja Íslendinga sem þaðan koma í sóttkví, svo ekki sé nú farið fram á meira.

Samkomubann, hlífðargrímur í almenningsrýminu væri kannski ekki úr vegi heldur í svona 2-3 vikur,“ segir hún.

Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fv. alþingismaður.

Ólína bætir við að henni finnist full mikil léttúð yfir því tali — sem virðist eiga að róa fólk — að sóttin leggist „bara“ á gamalt fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

„Það er ekkert „bara“ á bak við tölurnar. Allir yfir sextugu hafa ástæðu til að óttast og undirliggjandi sjúkdómar hrjá fleiri en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Á vinnumarkaði er umtalsverður hópur með undirliggjandi sjúkdóma. Það er ekki virðing að tala eins og þessir hópar Íslendinga sé sjálfsagður fórnarkostnaður. Á þetta hafa fleiri bent og ég tek undir það hér.“

Í berhögg við almenna skynsemi

Annar fyrrverandi alþingismaður, Frosti Sigurjónsson, undrast líka hina háu tíðni smita hér á landi miðað við fólksfjölda og bendir á að við höfum nú siglt fram úr Ítalíu í hlutfallslegum smitum, enda þótt þar sé talið ríkja neyðarástand.

„Sóttvarnarlæknir telur enn ekki tilefni til að setja þá sem koma frá smituðum svæðum í sóttkví nema þeir séu íslenskir. En séu þeir íslenskir er samt litið mjög alvarlegum augum á þá sem stelast úr sóttkvínni. Á meðan valsa erlendir ferðamenn frá hættusvæðum í þúsundatali um borgina. Heimsækja söfn, verslanir, veitingastaði og aðra fjölsótta staði.

Frosti Sigurjónsson fv. alþingismaður.

Líklegt er að einhverjir þessara ferðamanna séu veikir af covid-19, hóstandi og dreifandi smiti. Veiran er talin geta lifað í allt að 9 daga utan líkamans á yfirborði hluta.

Í Frakklandi, þar sem mun lægra hlutfall þjóðarinnar hefur smitast en hérlendis, hefur skólum verið lokað, söfnum lokað, fjölmennum viðburðum aflýst. Sóttvarnarlæknir á Íslandi telur „enn ekki tilefni“ til að grípa til slíkra úrræða.

Sumir virðast telja rangt að efast um ákvarðanir sérfræðinga en þær mega þá ekki augljóslega ganga í berhögg við almenna skynsemi,“ segir Frosti.