„Þá stend ég með íslenskum lögum og dómum“

Sigríður Á. Andersen fv. dómsmálaráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Ég hef gagnrýnt málsmeðferðina við skipun dómara í Landsrétt alveg frá upphafi, en dómur Mannréttindadómstólsins í þessu máli er samt sem áður óvæntur og fordæmalaus,“ sagði Sigríður Á. Anderssen dómsmálaráðherra í samtali við Viljann, um niðurstöðu dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá í morgun.

Hún hefur nú þegar gefið út að hún muni ekki segja af sér.

„Við munum fara yfir dóminn með sérfræðingum og ríkislögmanni á næstu dögum“, og Sigríður telur það koma til greina íslenska ríkið skjóti honum til yfirdómsstóls, en það þarf að gerast innan þriggja mánaða.

Staðfesting dóms yrði heldur ekki tilefni til afsagnar

Viljinn spurði þá hvort hún hefði íhugað að segja af sér ef yfirdómstóllinn staðfestir dóm meirihluta Mannréttindadómstóls Evrópu.

„Fái dómurinn að standa óbreyttur, muni hann hafa áhrif um alla framtíð, um alla Evrópu,“ segir Sigríður og segir afsögn sína ekki í kortunum.

Hún tekur undir þá gagnrýni sem kemur fram í minnihlutaáliti forseta mannréttindadómstólsins, Paul Lemmens og Valeriu Gritco, en þeir skiluðu samhljóða séráliti þar sem þeir töldu m.a. að í rök­semda­færslu dómsins hafi verið vikið frá viður­kenndri meg­in­reglu mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins, dómurinn gefi fordæmi um að menn dragi lögmæti dóma í efa, á öðrum þáttum en réttlátri málsmeðferð og að meirihlutinn hafi jafnvel látið opinbera pólitíska umræðu afvegaleiða sig.

Tilraun til óeðlilegra inngripa í íslensk lög og réttarkerfi

„Dómurinn dæmir matskennda stjórnsýsluaðferð við skipun dómara samkvæmt íslenskum lögum ólöglega. Það er fordæmalaust, að Mannréttindadómstóll Evrópu, taki svona á efnisatriðum íslenskra laga, og það þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi metið dómaraskipunina löglega,“ segir Sigríður, sem telur að dómur Mannréttindadómstólsins sé tilraun til óeðlilegra inngripa í íslensk lög og réttarkerfi.

Dómurinn hafi að auki ekki bindandi áhrif á Íslandi, en Sigríður bætir við:

„Verði þessu stillt þannig upp, þá stend ég með íslenskum lögum og dómum.“