„Þá þarf ríkisstjórnin að horfast í augu við það“

Frá upplýsingafundi Almannavarna í dag. / Lögreglan.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir staðfesti á upplýsingafundi Almannavarna í dag, að ríkisstjórnin hefði tilkynnt um opnun landsins þann 15. júní nk. án þess að útfærsla lægi fyrir um hvernig framkvæmdin verður í Leifsstöð. Svo geti farið, að hætta verði við áformin.

Hann sagði að embætti landlæknis og sóttvarnalæknis eigi fulltrúa í starfshópi sem hafi verið skipaður til að vinna að útfærslum og hann treysti því að þar verði sóttvarnir hafðar að leiðarljósi. Málið sé hins vegar á forræði ríkisstjórnarinnar.

Hópurinn eigi að skila útfærðum tillögum á mánudag. „Ef mat hóps­ins er að það sé ekki hægt að gera þetta þá þarf rík­is­stjórn­in að horf­ast í augu við það,“ sagði Þórólf­ur ennfremur.

Hann sagði að í skipunarbréfi hópsins segi að landið eigi að opnast eigi síðar en 15. júní næstkomandi og það þýði að opnað verði fyrr, liggi útfærðar og framkvæmanlegar tillögur fyrir.

Þórólfur sagðist gera sér grein fyrir að þetta væri umdeilt í samfélaginu, ekki síst meðal lækna og heilbrigðisstarfsfólks. Hann sé ósammála þeirri gagnrýni, þetta sé fínn tími til að reyna opnun landsins meðan ferðamennska er í lágmarki. Hann sé tilbúinn að ræða við þetta fólk og fara yfir málið. Vonandi takist að greiða úr óvissuatriðum í tæka tíð.