„Það er komið upp ákveðið bakslag, sem er auðvitað óþægilegt og óþolandi“

Frá upplýsingafundinum sem haldinn var í Katrínartúni. / Lögreglan.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra viðurkenndi á upplýsingafundi Almannavarna nú eftir hádegið að tíðindi undanfarinna daga um ný smit af kórónuveirunni og brot á reglum um sóttkví væru „ákveðið bakslag, sem væri auðvitað óþægilegt og óþolandi“ en hvatti landsmenn til að gæta að einstaklingsbundnum sóttvörnum og muna að hættan af Covid-19 sé enn mikil í samfélaginu.

Á upplýsingafundinum kom fram að Rúmenarnir tveir, sem brutu reglur um sóttkví og voru handteknir við innbrot og gripdeildir á Suðurlandi og reyndust aukinheldur smitaðir af veirunni, hafi augsýnilega náð að smita lögregluþjón á Suðurlandi sem hafði afskipti af þeim.

Hefur sá verið settur í einangrun og stendur smitrakning yfir, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á fundinum.

Eins og Viljinn greindi frá fyrr í dag, voru tvö sýni sem tekin voru af ferðamönnum við komuna til landsins í Leifsstöð í gær jákvæð. Er nú komið í ljós eftir blóðprufu að annar hinna sýktu hafði myndað mótefni fyrir veirunni og telst smit hans því gamalt og þarf hann því ekki að fara í sóttkví.

Hitt staðfesta tilfellið var hjá Íslendingi sem er búsettur erlendis og fer hann nú í einangrun og stendur smitrakning yfir.

Þríeyki Víðis, Þórólfs og Ölmu Möller landlæknis ítrekaði á fundinum að landsmenn þurfi að fara varlega og gæta að smitvörnum. Greinilegt sé að fólk sé farið að slaka á í þeim efnum og það viti ekki á gott.

Víðir nefndi sérstaklega að ekki gangi að fólk sem kemur til landsins og bíður niðurstaðna úr sýnatöku faðmi ættingja sína eða vini. Þeim beri að haga sér eins og þeir séu í sóttkví.