„Það er margt skrítið í vestfirska kýrhausnum“

Þeir lögðu á ráðin um sæstreng til Skotlands, kratarnir Sighvatur og Össur. Nú er öldin önnur.

Össur Skarphéðinsson, fv. ráðherra, tekur tvo gamla samstarfsmenn sína úr Alþýðuflokknum og síðar Samfylkingunni til bæna á fésbókinni í tilefni af umræðunni um þriðja orkupakkann og bendir á að þeir hafi algjörlega kúvent í afstöðunni til sæstrengs.

„Sjálfur hef ég afar vonda fortíð í þessu máli. Þegar ég gekk í Alþýðuflokkinn á sínum tíma, marghrakinn flóttamaður úr Alþýðubandalagi Ólafs Ragnars og Svavars sem þar eyddu öllum tíma sínum og annarra flokksmanna í innbyrðis slagsmál, þá gekk ég í náðarfaðm Jóns Baldvins og Sighvatar,“ rifjar Össur upp.

„Þá var eitt helsta kosningamál Alþýðuflokksins í atvinnumálum að leggja sæstreng til Skotlands og hefja útflutning á raforku. Þessi stefna var klöstruð upp í iðnaðarráðuneytinu sem flokkurinn réði þá. Ég var var óðara munstraður í að skrifa greinar um rafstreng til útlanda, og halda um það ræður sem upphitari á fundum með Jóni Baldvin,“ bætir hann við.

Og lokaorð hans eru þessi:

„Nú telur Jón Baldvin að sæstrengur til útlanda stappi landráðum næst. En hugmyndin um hann var á sínum tíma unnin, þróuð og kynnt í boði þessa sama fyrrum leiðtoga lífs míns. Það er margt skrítið í vestfirska kýrhausnum…..“