„Það er staðreynd að verkalýðshreyfingin ræður þessu“

Gylfi Zoega hagfræðiprófessor.

Verkalýðshreyfingin er í lykilstöðu til að ráða því hvort verður hér alvöru efnahagslegur skellur eða hvort hóflegir kjarasamningar ofan í áföllin í flugrekstri verða til þess að hægt sé lækka vexti og örva þannig hagkerfið svo komi öllum vel.

Þetta sagði dr. Gylfi Zoega prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands í samtali við Egil Helgason í Silfrinu í dag.

Gylfi situr jafnframt í peningastefnunefnd bankans, sem ákveður vaxtastigið í landinu. Hann sagði að í fyrsta sinn í sögunni værum við Íslendingar í þeirri stöðu að geta brugðist við samdrætti með vaxtalækkun. Þó eigi eftir að koma í ljós hverjar efnahagslegar afleiðingar gjaldþrots WOW verði og hverjir lendi í vandræðum í framhaldinu. Þó megi búast við að einhverjir fari í gjaldþrot, til dæmis hótel og veitingastaðir.

Gylfi sagði fyrirtækin í landinu greiða há laun í alþjóðlegum samanburði og lykillinn nú að samið verði um hóflegar launahækkanir. Slíkt telur hann undir verkalýðsforystunni komið, aflýsa þurfi verkföllum og semja um hóflegar hækkanir fyrir fólk á lægstu launum en hækkanirnar ekki látnar ná til fólks í öllum tekjuhópum.  

„Það er staðreynd að verkalýðshreyfingin ræður þessu,“ sagði prófessorinn og benti á að hægt sé að framkalla lífskjarabætur á annan veg en með beinum launahækkunum, til dæmis með ódýru húsnæði.