Það hefur enginn áhuga á að hefja flugrekstur með tómar flugvélar

„Í stuttu máli má segja, að það verður fyrst hægt að ræða slíkar yfirlýsingar, þegar það fylgja með upplýsingar um hvernig verður flogið — hvaða flugrekstrarleyfi liggja að baki og þegar fyrir liggur flugáætlun og bókunarvefur, þar sem hægt er að bóka sig í slík flug,“ segir Jón Karl Ólafsson fv. forstjóri Icelandair í samtali við Viljann, þegar hann er beðinn að leggja mat á yfirlýsingar nýja WOW-air og Play-flugfélagsins um að stefnt sé að fyrstu flugum á næstu vikum.

Jón Karl Ólafsson fv. forstjóri Icelandair.

„Það liggja engar slíkar upplýsingar fyrir á þessu stigi og ég veit ekki til að neinir flugvellir hafi beiðnir um ný flug á næstu vikum. Það eina sem gæti verið á prjónunum er, að setja slíkt upplýsingarferli í gang og þar með upplýsingar um hvar og hvenær væri hægt að bóka flug með nýjum aðila. Ég geri ekki ráð fyrir að neinn hafi áhuga á því að hefja flugrekstur með tómar flugvélar,“ bætir Jón Karl við.

Michelle Ballarin, stjórnarformaður og aðaleigandi nýja WOW-air, lýsti því yfir í gær að WOW-air hefji sig aftur á loft á næstu vikum.

Forráðamenn nýja Play flugfélagsins sögðu fyrir jól að félagið væri fullfjármagnað, en síðar kom á daginn að enn er leitað að fjármagni.