„Nú verður ekki hjá því komist að ríkissjóður stígi myndarlega inn í starfsemi Icelandair og bakki reksturinn upp á komandi mánuðum.“
Þetta segir Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri Viðskiptamoggans og fyrrverandi formaður VR, á fésbókinni, en hvert ríkið lokar nú landamærum sínum og fetar þannig í fótspor Bandaríkjanna. Afleiðingarnar verða gífurlegar fyrir flugfélög um heim allan og fyrirtæki í ferðaþjónustu.
SAS tilkynnti í kvöld um uppsagnir níu af hverjum tíu starfsmönnum sínum og búast má við að flugfélögin eigi enn einn ganginn eftir að hrynja í verði þegar hlutabréfamarkaðir opna á morgun.
Bresk stjórnvöld hafa ákveðið margháttaðar aðgerðir til þess að styðja við þarlend flugfélög og mörg lönd í Evrópu hyggjast sömuleiðis lána sínum kerfislega mikilvægu flugfélögum nægt fé til að komast í gegnum skaflinn næstu vikur, sem á sér enga hliðstæðu.
Stefán Einar skrifaði bók í fyrra um fall WOW air og þekkir því rekstur íslenskra flugfélaga vel. Hann segir að Icelandair standi ákvarðanir Bandaríkjamanna og fleiri landa ekki af sér af sjálfsdáðum.
„Sennilega þarf Icelandair að leggja 30-40% af flotanum innan skamms tíma og segja upp hundruðum starfsmanna fyrir mánaðamót. Stéttarfélög flugmanna og flugfreyja verða einnig að átta sig á alvarleika málsins. Það má engan tíma missa,“ segir hann.