„Skógarbændurnir okkar settu fram það markmið á dögunum að innan tíu ára gætu þeir höggvið úr íslenskum skógi fimmtíu þúsund jólatré og þar með annað allri innlendri þörf fyrir jólin. Íslenskir skógarbændur hafa á síðustu áratugum gróðursett þessa mikilvægu auðlind, skóginn, sem gerir landið allt byggilegra. Segja má að Vigdís Finnbogadóttir forseti hafi í upphafi ferils síns gerst verndari og talsmaður trésins: ,,þar sem þrjú tré koma saman, þar er skógur“, var hennar hvatning. Og bændurnir hlýddu nýju kalli og hafa plantað skóginum ásamt Skógræktinni og hugsjónafólki skógræktarfélaganna.“
Þetta skrifar Guðni Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins í grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann hvetur til þess að samskonar hvatningu þurfi gagnvart kjötframleiðslu og mjólkurvinnslu í landinu.
„Þessu kalli skógarbændanna er vel tekið og þá vaknar sú spurning hvort bændurnir eigi ekki líka að setja fram þá hugsjón að þeir vilji í samstarfi við neytendur framleiða allt kjöt og allar mjólkurvörur sem neytt er í landinu og geri sáttmála við ríkisvaldið um markmiðin. Við eigum einhver heilnæmustu og hollustu matvæli hér á jörð og byggjum landið allt með framleiðslu á þeim afurðum. Er einhver á móti því að íslenskir bændur framleiði allt kjöt og allar mjólkurvörur og skili þeim með gæðunum og á ásættanlegu verði til neytenda? Ekki einu sinni Kaupmannasamtökin eða heildsalarnir gætu lagst gegn þessu því fólkið sem verslar við þá er að stærstum hluta á þessari skoðun, og inn við beinið eru þeir stoltastir af matnum sem þeir selja fyrir íslenska bændur,“ segir Guðni.
Hann segir ríkja opinbert kæruleysi hér á landi, „því miður, í þessum málum og of lítill skilningur stjórnmálamanna eða ákvarðanir þeirra segja manni það. Þeir ætla með ferskt kjöt inn í landið, þeir leyfa ferðamönnum að bera með sér kílói af kjöti. Í Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum væri fólki vísað til föðurhúsanna fyrir slíkt framferði. Eitt sinn munaði litlu hjá mér á ferð um Bandaríkin, þeir fundu tvo banana í farangri mínum, það munaði hársbreidd að mér yrði vísað úr landi.“
Og landbúnaðarráðherrann fyrrverandi segir ennfremur:
„Ég bið bæði bændur og ráðamenn landsins að hugleiða ræðu mína. Það verður ekki bætt ef við höldum áfram á þeirri braut að ganga sífellt meira og meira á hagsmuni íslenskrar landbúnaðarframleiðslu, við eigum góða bændur og fjölskyldubúskap sem er umgjörð um einstakt matvælaland Íslands. Gjöfin í tilefni hundrað ára fullveldis Íslands væri best sú að styrkja stöðu íslenskrar matvælaframleiðslu og landbúnaðarins.“