„Það var persónulegur greiði við vin minn Skúla Mogensen“

Short fer fyrir PT capital sem á í Nova og KEA hótelum hér á landi. Hér er hann ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni og Liv Bergþórsdóttur þegar tilkynnt var um söluna á Nova. Liv var einmitt stjórnarformaður WOW air.

Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir segir að það sé rangt, sem fram kemur í nýrri bók Stefáns Einars Stefánssonar um gjaldþrot WOW air, að hann hafi verið hluthafi í flugfélaginu. Stefán Einar vísar til yfirlýsinga sem gefnar voru rétt fyrir gjaldþrotið og segir að til hafði staðið að gera Björgólf Thor að hluthafa samhliða fjárfestingum aðaleiganda símafélagsins Nova í félaginu.

„Í nýútkominni bók um ris og fall WOW flugfélagsins er ég ranglega kallaður hluthafi í félaginu, eða öllu heldur að ég hafi verið orðinn hluthafi í því á síðustu dögum starfsemi þess, í krafti þátttöku minnar í skuldabréfaútboði WOW á haustdögum 2018,“ segir Björgólfur Thor í pistli á vefsíðu sinni í dag.

„Hið rétta í málinu er, að fyrsta og eina aðkoma mína að WOW var að ég féllst á að kaupa skuldabréf fyrir 3 milljónir evra í september sl. Það var persónulegur greiði við vin minn Skúla Mogensen. Eins og allir vita hafði hann unnið þrekvirki við uppbyggingu félagsins en stóð frammi fyrir miklum vanda. Þessar 3 milljónir evra voru greiddar í peningum 26. september sl. Allt frá stofnun félagsins til gjaldþrots þess var þetta eina aðkoma mín að því.

Hvorki ég né nokkrir á mínum vegum tóku nokkurn tímann þátt í þeim viðræðum sem WOW átti við mögulega nýja fjárfesta.

Stefán Einar Stefánsson viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins og fv. formaður VR.

Hvorki ég né nokkur á mínum vegum átti nokkru sinni sæti í kröfuhafaráði WOW. Ég samþykkti hins vegar þær tillögur sem lagðar voru fyrir skuldabréfaeigendur, um hugsanlega breytingu krafna í hlutafé, í þeim tilgangi að bjarga verðmætum, öllum til hagsbóta. Forsenda þeirra tillagna var að nýir fjárfestar kæmu með hlutafé inn í félagið. Það gekk ekki eftir.

Rétt eins og aðrir skuldabréfaeigendur hef ég nú lýst kröfu í þrotabú WOW. Sú staðreynd ein staðfestir að ég var ekki hluthafi í félaginu.

Það er missir að WOW og leitt að ekki hafi tekist að koma félaginu fyrir vind. Ég leyfi mér þó að vona að umfjöllun um málefni félagsins verði rétt og sanngjörn og að rangfærslur, á borð við þá að ég hafi verið hluthafi í WOW eða átt einhverja aðkomu þar aðra en kaup á skuldabréfum sl. haust, heyri sögunni til,“ segir hann ennfremur.

Tókst ekki að ganga frá formsatriðum

Stefán Einar, sem er fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, hefur brugðist við pistli Björgólfs Thors, með færslu á fésbókinni í kvöld.

„Tveimur dögum áður en WOW air varð gjaldþrota steig Skúli Mogensen fram í fjölmiðlum og sagðist bjartsýnn um að bjarga mætti félaginu.
„Staðan er nokkuð góð eftir fréttir dagsins þar sem við vorum að tilkynna að skuldabréfaeigendur hafa samþykkt að breyta kröfum sínum í hlutabréf í félaginu. Þar með erum við að styrkja félagið allverulega þannig að það er jákvætt skref í rétta átt,“ sagði hann í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og visir.is.

Nú hefur aðstoðarfólk Björgólfs Thors Björgólfssonar gert athugasemdir við setningu í bók minni um ris og fall WOW air þar sem atburðum daginn áður en félagið varð gjaldþrota (28. mars) er lýst. Þar segir:

„En þá sást í tíru. Fyrir milligöngu lykilfólks innan WOW air hafði tekist að koma á fundi með Hugh Short, forstjóra PT Capital, sem er bandarískur fjárfestingarsjóður. Hann var þá staddur hér vegna annarra verkefna. Hann var að auki mjög vel kunnugur Liv Bergþórsdóttur, stjórnarformanni WOW, og Björgólfi Thor sem nú var orðinn hluthafi í félaginu á grundvelli þátttöku sinnar í skuldabréfaútboðinu í september 2018.“

Skúli Mogensen, fv. forstjóri og aðaleigandi WOW air.

Í björgunarleiðangrinum tókst ekki að ganga frá formsatriðum varðandi yfirtöku skuldabréfaeigenda á WOW air, áður en félagið varð gjaldþrota, en síðustu sólarhringana laut félagið í raun stjórn þeirra þrátt fyrir það. Um það vitna ónákvæm ummæli Skúla í fyrrnefndu viðtali sem þar hefur augljóslega fullyrt meira en hann mátti í raun.

Rétt hefði verið að orða setninguna varðandi aðkomu hans að félaginu á þessa leið: „… Björgólfi Thor sem nú hafði samþykkt að gerast hluthafi í félaginu á grundvelli þátttöku sinnar í skuldabréfaútboðinu í september 2018.“

Hitt er annað mál að athugasemd Björgólfs Thors við þessa setningu í bókinni breytir engu um efnisatriði málsins. Fundurinn sem reynt var að koma á með Hugh Short, manninum sem fjárfest hafði í símafélagi Björgólfs, Nova, og lotið hafði daglegri stjórn stjórnarformanns WOW air um langt árabil, var hugsaður sem lokahnykkurinn í því að gera Björgólf Thor að hluthafa í félaginu.

Hefði Short fallist á að leggja 40 milljónir dollara í félagið gegn því að fá 60% hlut í því, hefði Björgólfur komist í hluthafahópinn,“ segir Stefán Einar ennfremur.