Það voru alltaf öfl sem reyndu að vinna á móti okkur

Margrét Hrefna Pétursdóttir.

„Ég brotnaði niður á hlaupabrettinu í líkamsræktarstöðinni minni á laugardaginn. Alls ekki í fyrsta skipti síðan á fimmtudag. Söknuður vegna þess frábæra tíma sem ég á víst aldrei aftur eftir að fá. Samhugur, samheldni og fá að vinna við það sem mér þótti skemmtilegast. Frelsi til að fá að ferðast á ódýran hátt. En nú er ég aðallega reið og ég er sár. Ekki út í mitt gamla fyrirtæki, heldur hvernig var komið fram við okkur síðustu mánuði,“ segir Margrét Hrefna Pétursdóttir,  sem starfaði sem gæðastjóri í flugi hjá WOW air í einlægri færslu á fésbók í dag.

„Við erum reyndar búin að berjast í öll þessi ár, þar sem það voru alltaf öfl sem reyndu að vinna á móti okkur og ég held að það sé meðal ástæðan út af hverju starfsmannahópurinn var svona samheldinn (og er í raun ennþá). WOW fjölskyldan. Síðustu mánuðirnir voru einstaklega erfiðir og þá fann maður sérstaklega að það voru einstaklingar og hópar sem vildu okkur ekki. WOW gerði mistök og ólíkt pólitíkusunum og forstjórum flestra fyrirtækja, þá kom minn forstjóri fram á sjónarsviðið og viðurkenndi WOW mistökin. Hann tók ábyrgð og sagði það frammi fyrir alþjóð. Eitthvað sem aðrir mættu læra af. Aðrir hafa gert mistök og ekki tekið ábyrgð,“ segir hún ennfremur.

„Ég er búin að vera að vinna af alhug og samviskusemi í yfir 6 ár við að tryggja flugöryggi WOW air. Það var mitt starf. Ég fékk allan þann stuðning sem ég vildi, enda flugöryggi alltaf númer eitt hjá WOW air. Öruggt umhverfi fyrir áhafnirnar okkar og gesti. Þó að ég segi sjálf frá, þá tókst mér einstaklega vel, enda með gott fólk í kringum mig. En út af hverju var mér ekki hjálpað? Út af hverju var 1100 manns ekki hjálpað? Frábært vörumerki og það var búið að læra af mistökunum, losa sig við A330 og einfalda reksturinn. Öll tölfræði var að sýna að breytingarnar, drastískar breytingar, voru að sýna mikla jákvæðni og voru að skila árangri. En það var samt unnið gegn okkur.

Flestir fjölmiðlar voru miskunnarlausir, hver fyrrverandi og núverandi ICE forstjórinn/stjórnarmaðurinn talaði okkur niður og það sem skipti mestu máli, var að æðstu stjórnmálamenn sögðust ekki ætla að grípa inn í fyrirtæki í einkarekstri. Út af hverju var þá kísilfyritæki hjálpað? Út af hverju var Sjóvá bjargað? Út af hverju hefur ICE verið oft hjálpað í gegnum aldanna rás og síðast með 10 milljarða láni á kosta kjörum frá ríkisbanka (í veði í nánast verðlausum vélum)?“

Ég ætla ekki að kjósa Sigurð Inga, Katrínu Jakobs eða Bjarna Ben.

Og Margrét Hrefna segir ennfremur:

„Út af hverju er skynsamlegra að senda 1100 manns á atvinnuleysisbætur og til viðbótar allur sá fjöldi manns sem hefur líka misst vinnu, út af því að WOW-inu var ekki bjargað? Það eru eignir í fyrirtæki, þegar að horft er á sérþjálfaða starfsmenn með mikla reynslu á bakinu. En Katrínu, Bjarna og Sigurði Inga var sama. Samkvæmt þeim er betra að auka innkomu í viðbragðsáætlanirnar vegna þrotsins. Út af hverju mátti ekki nota þennan pening frekar í að bjarga okkur? Bjarga mér? 

Þau segja að samkeppnin haldi áfram og farseðillinn muni ekki hækka. Farseðillinn hefur þegar hækkað. En samkeppnin mun koma og hún verður erlend. Ekki í boði íslenskt vinnuafls. Íslendingurinn mun njóta samkeppninnar eins og hann hefur gert síðustu 7 ár. En íslenskt vinnuafl mun ekki vera orsökin. Út af því að mér og 1100 – 4000 manns var ekki bjargað. Ég mun styrkja erlenda vinnuaflið, þegar að það kemur.

Ég ætla ekki að kjósa Sigurð Inga, Katrínu Jakobs eða Bjarna Ben. Ég ætla ekki að bjarga ykkur og ég vona að aðrir sjái ekki ástæðu til þess heldur.“