„Við sögðum að jafnréttislög þurfa að vera virt við skipan dómaranna, það eru alveg hreinar línur með það að við vorum ekki að þrýsta á ráðherra að brjóta lög, með því að horfa til jafnréttislaganna,“ segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, í samtali við Viljann, sem hafði samband við hann vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu sem birtur var í gær, sem þykir áfall fyrir alla þá aðila er stóðu að skipan dómara í Landsrétt.
Haft var eftir Þorsteini á fréttavef Morgunblaðsins 24. maí 2017, að hæfnisnefnd sé falið að leggja mat á hæfni hvers umsækjanda fyrir sig en einnig eigi að hafa jafnréttissjónarmið til hliðsjónar.
„Það sést í þessu tilviki að það hallar verulega á konur og maður hefði viljað sjá ákveðnar aðgerðir til að reyna að bæta úr þessum mikla kynjahalla sem er innan dómarastéttarinnar.“
„Ég átti samtöl við forystumenn allra stjórnmálaflokkanna á þinginu og mér var það alveg ljóst að tillaga dómnefndar myndi ekki hljóta brautargengi á þinginu,“ sagði Sigríður Á. Andersen, við Ríkisútvarpið 7. júní árið 2017.
Þáverandi ríkisstjórn samanstóð af Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn og Bjartri framtíð. Á lista hæfisnefndarinnar höfðu verið tíu karlar og fimm konur, sem þóttu hæfust til að gegna embætti dómara við Landsrétt.
„Það vorum við sem rákum hana tilbaka vegna þess að við hefðum ekki hleypt fyrri listanum í gegn,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, á opnum fundi Viðreisnar, daginn áður, skv. sömu frétt Ríkisútvarpsins.
„Við sögðum einfaldlega að listi sem að uppfyllti ekki jafnréttissjónarmið, að við gætum ekki samþykkt hann,“ var haft eftir Benedikt Jóhannessyni, þáverandi formanni Viðreisnar, í hinni sömu frétt.