Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra segir að bakslag í mörgum löndum vegna kórónuveirunnar sé vissulega áhyggjuefni. Mögulega muni sú aðferð, sem er alls ekki algild í löndunum í kringum okkur og við ákváðum að fara, þ.e. að skima alla sem hingað koma 15 ára og eldri, mögulega eldast betur en margar ákvarðanir annarra landa.
„Við höfum með því yfirsýn og getum séð út úr þessum gögnum og fengið ýmiss konar mjög mikilvægar vísbendingar. Það yrði mikið áfall ef við þyrftum aftur að loka landinu. Ég ætla ekki að gerast spámaður um það hvað kann að verða vegna þess að við vitum svo ofboðslega lítið þrátt fyrir að við vitum miklu meira nú en áður. Ef það verður metið sem svo að við getum alls ekki haft landið opið er það auðvitað ákveðin niðurstaða. Við erum miklu frekar að vinna með önnur úrræði en að loka þurfi landinu og það yrði áfall ef svo yrði,“ sagði hún í svari við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins og fv. utanríkisráðherra, á þingi í vikunni.
Gunnar Bragi benti á fréttir frá Kína og fleiri löndum um aðra bylgju veirunnar og velti fyrir sér líkum á því að hún skelli á landinu á næstunni með sambærilegum hætti og gerðist hér í mars og apríl. Spurði hann ráðherrann hvort áætlanir væru uppi um að loka landinu aftur, ekki síst í ljósi þess að í gangi væri umfangsmikið og dýrt kynningarátak.
„.Hvaða áhrif hefur það á þá herferð ef við þurfum að loka landinu aftur? Hafa menn hugsað út í það?“ spurði Gunnar Bragi.
Þórdís Kolbrún svaraði:
„Varðandi það að við séum að opna landið með þeim hætti sem við gerum, vitandi að mögulega verði bakslag og önnur bylgja, þá reyna menn með veikum mætti, en byggt á gögnum þó, að lesa í líkurnar á því að svo verði. Þannig að við búum okkur undir það að það komi önnur bylgja og við tökum því sem höndum ber hvað það varðar. En við vinnum líka með það að þessi leið feli í sér ásættanlega áhættu og gerum auðvitað ráðstafanir og gerum ráð fyrir því, eins og komið hefur í ljós, að upp komi smit og erum með ferla hvað það varðar og það kann að vera að það verði hópsmit o.s.frv. En hvað varðar alveg nýja stóra bylgju þá er það bara verkefni sem við tökumst á við.
Varðandi átakið þá er mikill sveigjanleiki í því vegna þeirra ytri aðstæðna sem uppi eru þannig að það er gert ráð fyrir því að óvæntir hlutir geti komið upp en við vinnum út frá því að við viljum að opna landið og erum í samkeppni við önnur ríki um að fá hingað ferðamenn þannig að það er algerlega rétt ákvörðun að fara í þetta átak en sveigjanleikinn þar skiptir máli. Við munum þá geta beitt því og þeim fjármunum sem í það fara með þeim hætti. Ef það kemur önnur bylgja þá þurfum við einfaldlega að endurskoða þær ráðstafanir sem við erum með nú“